Skip to main content

Fastir bílar tefja mokstur á Fagradal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. feb 2022 09:39Uppfært 22. feb 2022 10:00

Minnst fjórir bílar, sem skildir voru eftir á Fagradal þegar gekk í mikið óveður þar í gærkvöldi, eru enn fastir þar og tefja fyrir mokstri. Þak fauk af íbúðarhúsi á Vopnafirði.


Útkall barst um kvöldmatarleytið í gær á Fagradal. Það endaði með því að minnst fjórir bílar voru skildir eftir á dalnum en björgunarsveitirnar á Reyðarfirði og Egilsstöðum hjálpuðu fólki úr þeim til byggða. Tók sú aðgerð eitthvað fram eftir kvöldi.

Heldur fyrr virðist hafa gengið í veðrið en vonast var eftir. Vegagerðin hafði gefið út að óvissustig yrði á dalnum frá klukkan 21 og þá líkur á lokun. Reyndin varð hins vegar sú að veginum var lokað upp úr hálf sex.

Þá kom björgunarsveitin Jöklar manni til aðstoðar sem sat fastur í bíl í Arnórsstaðamúla. Á Vopnafirði fauk þakið eins og það lagði sig af íbúðarhúsi og olli skaða á nærliggjandi húsum.

Nóttin mun að öðru leyti hafa verið róleg, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu og lögreglu. Víða á Austurlandi var afar hvasst í gærkvöldi og nótt ásamt úrkomu, sem breyttist þó fljótt í slyddu og loks rigningu á láglendi.

Verið er að reyna að losa bílana á Fagradal þannig hægt sé að opna veginn. Enn er lokað á Fjarðarheiði, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði og óveður á Vatnsskarði sem merkt er ófært. Leiðir til sveita á Héraði og í Breiðdal eru líka skráðar ófærar í kortum Vegagerðarinnar. Á fjörðum er þungfært eða þæfingur en unnið að mokstri. 

Í Fjarðabyggð tefst snjómokstur, einkum á Eskifirði, vegna bilana í tveimur moksturstækjum.

Mynd úr safni.