Skip to main content

Fáum sveitarfélögum ætlað að standa undir mikilli hækkun veiðigjalda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. apr 2025 15:23Uppfært 02. apr 2025 15:24

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga vinna að greiningu á ætluðum áhrifum breytinga á lögum um veiðigjald á fjárhag þeirra og rekstur. Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar segir viðbúið að breytingarnar komi sérstaklega fram í fáum sveitarfélögum sem treysti á uppsjávarveiðar.


Rúm vika er síðan ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands kynntu tillögur sínar um breytingar á tillögum um veiðigjaldi. Umsagnarfrestur um þær rennur út á morgun en síðan þær komu fram hafa talsmenn bæði útgerðar og sveitarfélaga varað við áhrifum þess.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir umtalsverðum hækkunum á veiðigjaldi af annars vegar uppsjávarafla, hins vegar þorski og ýsu. Þegar rýnt er í uppsjávaraflann kemur í ljós að miðað við árið í ár hækki veiðigjöld af norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl um 4,6 milljarða en alls er vonast til að hækkunin skili ríkinu 8,5 milljörðum í auknar tekjur á ári.

Engar bætur þegar ekkert veiðist


Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, varar við því að gjaldheimtan af uppsjávarveiðinni leggist hart á fá sveitarfélög. „Það eru mjög há sveitarfélög sem standa á bakvið þessa miklu boðuðu hækkun. Uppsjávarveiðar hafa byggst upp í Vestmannaeyjum, Vopnafirði, Langanesbyggð, Hornafirði og hér í Fjarðabyggð.“

Þetta sé óþægilegt í ljósi þess að uppsjávarveiðar séu af náttúrunnar hendi sveiflukenndar. „Það geta orðið miklar búsifjar þegar niðursveiflur eru í veiðunum og til þessa hefur ríkið ekki bætt okkur þær. Frumvarpið nú kemur á sama tíma og það er loðnubrestur annað árið í röð.“

Gagnrýnendur frumvarpsins telja að það dragi úr vilja sjávarútvegsfyrirtækjanna til að fjárfesta og vara við að það hrindi af stað eða hraði enn frekar hagræðingu og samþjöppun í greininni. „Það er boðuð mikil hækkun og þegar fyrirtæki þurfa að greiða hærri gjöld er líklegt að það hafi áhrif á annan rekstur. Tilfinningin er að þau dragi saman í fjárfestingum eða kaupum á þjónustu og það eru fjármunir sem hafa víðtækara skattspor. Þetta getur haft áhrif á sveitarsjóði, bæði með minna útsvari en líka samdrætti í tekjum hafnarsjóðs. Ef vinnsla leggst af í byggðarlögum þá hefur það mikil áhrif.“

Telja ríkinu skylt að meta fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög


Bæjarráð Fjarðabyggðar ályktaði á mánudag um þörfina á að nánar yrði greint hvaða áhrif frumvarpið hefur á byggðir sem byggja á sjávarútvegi. Slík vinna er í gangi á vegum Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, þar sem Jón Björn er í stjórn. Hæpið er þó að það takist að ljúka henni allri áður en frestur til að skila umsögn um frumvarpsdrögin rennur út á morgun.

„Við höfum fengið KPMG til að greina hvaða fjárhagslegu áhrif þetta hefur á sveitarfélögin. Við munum skila inn umsögn á morgun með fyrirvara um viðbótargögn sem koma þegar KPMG hefur lokið sinni úttekt.“

Þá benda sveitarfélögin á að samkvæmt sveitarstjórnarlögum skuli fara fram sérstakt mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga ef sýnt þykir að fyrirsjáanlegt er að lögin hafi slík áhrif. „Slíkt mat liggur ekki fyrir og það hefur ekkert samráð verið haft við sveitarfélögin.“