Skip to main content

Félagsmiðstöðin Knellan mun flytja í grunnskólann

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. jan 2024 13:18Uppfært 26. jan 2024 13:18

Félagsaðstaða ungmenna á Eskifirði mun taka miklum breytingum til batnaðar innan ekki svo langs tíma því ákveðið hefur verið að starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Knellunnar flytji í grunnskólann á staðnum.

Félagsaðstaða ungmenna utan skólatíma á Eskifirði hefur um nokkra hríð verið í daprari kantinum en aðstaða þeirra í félagsmiðstöðinni Knellunni er bæði barn síns tíma og húsnæðið sjálft látið mikið á sjá gegnum tíðina.

Það horfir nú loks til batnaðar enda gera áætlanir Fjarðabyggðar nú ráð fyrir að Knellan flytjist á neðstu hæð grunnskólans á Eskifirði um leið og ný viðbygging leikskólans Dalborgar verður klár í vor eða sumar. Þá mun elsta deild leikskólans flytjast aftur í Dalborg og Knellan færð í rýmið sem þá losnar í grunnskólanum.

Ungmennaráð Fjarðabyggðar ályktaði um slæma stöðu Knellunnar snemma í vetur og þar bókað að aðstaðan væri með öllu óviðunandi og brýn þörf væri á að flytja starfsemina annað. Þar reyndar sérstaklega tekið fram nauðsyn þess að börn og unglingar sem nýta sér aðstöðuna fái að hafa sitt að segja um hönnun á nýju húsnæði þegar þar að komi. Upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar staðfestir við Austurfrétt að rödd ungmennanna fái sannarlega að heyrast áður en til þess kemur að aðstaðan verði hönnuð og ákveðin.