Skip to main content

Felldu tillögu um áskorun um stórbætta veðurgjöf við Egilsstaðaflugvöll

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jún 2025 10:33Uppfært 05. jún 2025 11:21

Enn þann dag í dag er ekki búið að vinna ítarlegt ókyrrðarkort fyrir háloftin kringum Egilsstaðaflugvöll en til þess þarf rannsóknir og helst ráða veðurfræðing á staðinn. Tillaga um að hvetja innviðaráðherra til að bæta úr þessu var felld í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings nýverið.

Tillaga þessi kom frá áheyrnarfulltrúa Miðflokksins í ráðinu, Benedikt V. Warén, sem lagði til að skorað yrði á ráðherra að bæta almennt veðurgjöf við Egilsstaðaflugvöll. Ekki væri vanþörf á að hans mati en til þess þyrfti fjármagn til rannsókna, ráða veðurfræðing á Egilsstöðum sem sæi um að senda veðurbelgi reglulega upp til að afla gagna og síðast en ekki síst bæta tækjabúnað umhverfis völlinn.

Engir fulltrúar umhverfis- og framkvæmdaráðs tóku undir tillöguna. Fjórir felldu hana meðan þrír aðrir sátu hjá. Benedikt segir það miður því það gleymist alltaf að það verður að hafa fyrir því að hlutirnir breytist á Austurlandi og til þess þarf reglulega að minna á sig hjá ráðamönnum.

„Ítarlegt ókyrrðarkort er enn ekki til fyrir Egilsstaðaflugvöllinn. Það sem ég er að reyna að fá í gegn með þessu er að það verði ráðinn veðurfræðingur hér á staðinn sem myndi kynna sér þetta í þaula og á staðnum. Betri þekking á veðrinu hér í kring yrði bara af hinu góða en auðvitað kostar þetta einhverja peninga. Það eru reyndar ein 20 ár síðan ég lagði svipaða tillögu fram fyrir þáverandi flugmálastjóra sem leist mjög vel á hugmyndina en svo gerðist ekkert meira. Ef að við hér leggjum ekki svona hluti fram og ýtum duglega á þá dettur engum í hug fyrir sunnan að gera neitt í neinu hér á Austurlandi.“