Ferð til Venusar undirbúin á Íslandi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. ágú 2023 12:25 • Uppfært 10. ágú 2023 12:30
Sérstök flugvél stoppaði á morgun á Egilsstaðaflugvelli til að taka þar eldsneyti. Um er að ræða rannsóknavél frá þýsku geimrannsóknastofnuninni. Vísindamenn frá henni hafa dvalið í tvær vikur hérlendis við eldfjallarannsóknir til að undirbúa ferð könnunarfars til Venusar.
Flugvélin sem hafði tveggja tíma viðdvöl á Egilsstöðum í morgun er með einkennisstafina D-CFFU. Um er að ræða 30 ára gamla Dornier-vél. Hún er bæði útbúin súrefnisbúnaði og öflugum hreyflum sem gerir henni að fljúga hátt en aðalmálið er háþróaður radarbúnaður.
Skoða ferskustu eldfjöllin
Um 20 manna teymi á vegum rannsóknastofnunarinnar (DLR) hefur dvalið hérlendis undanfarnar tvær vikur, þar af er átta manna áhöfn vélarinnar. Hún hefur til skiptis gert út frá Höfn í Hornafirði og Reykjavík og flogið yfir þau eldfjöll hérlendis sem síðast hafi verið virk, annars vegar Holuhraun, hins vegar Fagradalsfjall og nágrenni.
Hópurinn er hluti af alþjóðlegu rannsóknaverkefni sem kallast Veritast og er leitt af bandarísku geimrannsóknastofnuninni, NASA. Markmið þess er að senda könnunarferð til Venusar árið 2030.
Tvíburapláneturnar
Venus og Jörðin eru um margt áþekkar plánetur, þær eru svipaðar að stærð og báðar taldar gerðar úr bergi og málmum. Venus hefur jafnvel verið kölluð tvíburasystir jarðarinnar. Á þeim er hins vegar stór munur, ekkert líf þrífst á Venus. Yfirborðið er skraufþurrt enda hitinn þar 500°C, loftþrýstingurinn á við það sem finnst í dýpstu höfum Jarðar, yfir svífa ský úr brennisteinssýru og lofthjúpurinn er að mestu úr koltvísýringi.
Þannig mun það þó ekki hafa alltaf verið því vatn er eitt sinn talið hafa fundist á Venusi. Þar er hins vegar talin hafa verið mikil eldvirkni sem loks hafi myndað lofthjúpinn og framkallað „óðagróðurhúsaáhrif,“ eins og það er orðað í lýsingu Stjörnufræðivefsins.
Nýjustu tækin reynd á Íslandi
Og þar kemur Ísland til sögunnar þegar leitað er svara við því hvers vegna Jörðin og Venus hafi síðustu 4,5 milljónir ára þróast í svo gjörólíkar áttir. Talið er að á Venusi séu eldfjallagígar og eldvirkni. Þess vegna hefur Veritas-hópurinn safnað gögnum við íslensku eldfjöllin sem veita grunnupplýsingar fyrir gagnasöfnun á Venusi.
Radarbúnaðurinn um borð í flugvélinni er sömu gerðar og sá sem stendur til að senda til Venusar. Með honum er vonast til að kanna umfang nýlega runnins hrauns. Talið er hægt að finna hraun að umfangi á við það sem rann úr Holuhrauni á yfirborði Venusar. Vísindamenn voru einnig að störfum á jörðu niðri þar sem þeir söfnuðu steinum og tóku sýni til að bera saman við radarmælingarnar.
Samkvæmt umfjöllun á vef DLR var í Íslandsferðinni einnig reynd frumgerð litrófsskanna sem nemur innrauða orku. Slíkt tæki á einnig að senda að Venusi til að reyna að greina hvernig berg plánetunnar er samsett, til dæmis hvaða málma er þar að finna.
Rannsóknirnar á Venusi eiga síðan að veita upplýsingar um hvernig bæði plánetan sjálf en einnig aðrar reikistjörnur hafa þróast.