Ferðafólki bjargað úr vandræðum við Snæfelli

Björgunarsveitirnar Jöklar og Hérað björguðu í dag fólki sem hafði lent í vandræðum í vetrarferð í nágrenni Snæfells. Vegir á svæðinu eru skráðir ófærir.

Óskað var eftir aðstoð björgunarsveita laust fyrir klukkan tvö í dag og fóru sveitirnar af stað á sitt hvorum bílnum. Verkefnið gekk vel og var einn bíll, sem lent hafði í vandræðum í krapa, dreginn upp. Fimm farþegar voru í bílnum.

Mikið hefur snjóað í nágrenni Snæfells í gær og áfram í dag. Samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar er greiðfært eftir Fljótsdalsheiði inn að afleggjaranum að Snæfelli. Eftir það eru leiðirnar merktar ófærar, hvort sem er niður í Hrafnkelsdal, inn að Snæfelli eða norður að Kárahnjúkum. Þá eru Þríhyrningsleið og Arnardalsleið á Jökuldalsheiði líka merktar ófærar.

Ekki munu hafa borist fleiri útköll í dag vegna vetrarfærðarinnar. Grátt hefur verið í öll hæstu fjöll á Austfjörðum síðan um síðustu helgi en enn hefur bætt í samfara kulda og úrkomu síðan í gær.

Frá Snæfellsleið í morgun. Mynd: Þuríður Skarphéðinsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.