Ferðamaður hjálpinni guðslifandi feginn eftir fimm daga í Loðmundarfirði
Ferðamanni sem hafði lagt á sig að ganga út hluta Seyðisfjarðar um síðustu helgi og svo haldið áfram upp og niður í Loðmundarfjörðinn fannst og var komið til hjálpar af björgunarsveitum eftir hádegi í dag. Reyndist ferðalangurinn hafa sofið undir berum himni síðan á sunnudag án svefnpoka, tjalds eða vista af neinu taginu en heit súpa og orkudrykkur um borð í björgunarbátnum Hafbjörgu frá Neskaupstað var kærkomin hressing.
Tilkynning um manninn barst björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði rétt fyrir klukkan ellefu í morgun en þá hafði ekkert spurst til mannsins síðan á laugardagskvöld. Þá hafði viðkomandi fengið far út Seyðisfjörð að bóndabæ þar sem hann sagðist eiga gistingu vísa.
Skömmu eftir að tilkynningin barst bættust björgunarsveitarmenn frá bæði Sveinunga á Borgarfirði eystra og Gerpi á Norðfirði við teymi Ísólfs að leita mannsins og Gerpismenn fljótt komnir á staðinn með björgunarbát sinn Hafbjörg til aðstoðar mönnum á björgunarbát Ísólfs.
Fljótlega eftir að leit hófst fundust spor sem talin voru eftir manninn sem lágu í norðanverðum Seyðifirði og leitinni því beint að strandlengjunni þar auk þess að farið var inn eyðifjörðinn Loðmundarfjörð en þar er fjarskiptasamband lítið sem ekkert.
Maðurinn fannst tiltölulega fljótlega í kjölfarið með aðstoð dróna þar sem hann stóð í fjöruborði Loðmundarfjarðar og veifaði eins og hann gat. Gekk vel að komast að manninum og koma honum um borð í Hafbjörgu þar sem heit súpa og orkudrykkur var á boðstólnum.
Maðurinn hafði á þeim tímapunkti verið á ferðinni á þessum slóðum um fimm daga skeið án nokkurs búnaðar að ráði. Hann hafði sofið undir berum himni og ekki orðið meint af þó næturfrost hafi verið síðustu næturnar. Hafði hann líka gripið til þess ráðs að neyta hinna og þessara jurta sem hann fann á ferð sinni. Maðurinn hafði reynt áður að gera fiskibátum sem inn og út Seyðisfjörð fóru viðvart um stöðu sína en án árangurs.
Farið var raklaust með manninn á fjórðungssjúkrahús Austurlands í Neskaupstað til aðhlynningar og athugunar.