Fermetraverð á Austurlandi tæpur helmingur miðað við Reykjavík
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. sep 2025 08:25 • Uppfært 12. sep 2025 08:26
Fermetraverð íbúðaverðs á Austurlandi nær á fæstum stöðum helmingi þess sem það er í Reykjavík. Munurinn gagnvart höfuðborginni er minni í fjölmennari byggðarlögum landsbyggðarinnar en þeim fámennari.
Þetta kemur fram í nýjustu útgáfu af Glefsum, fréttabréfi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV).
Greining SSV er þó ekki unnin eftir byggðakjörnum heldur sveitarfélögum. Þannig kemur fram að fermetraverð í Múlaþingi í bæði einbýli og fjölbýli er um helmingur þess sem það er í Reykjavík.
Munurinn er meiri í Fjarðabyggð, þar sem verðið er um þriðjungur þess sem það er í Reykjavík. Enn meiri munur er á Vopnafirði þar sem verðið er um fjórðungur þess sem það er í höfuðborginni.
Í þremur sveitarfélögum á landinu er húsnæðisverð hærra en í Reykjavík. Það kemur ekki á óvart að það eru nágrannasveitarfélögin Garðabær, Seltjarnarnesbær og Kópavogur. Garðabær og Seltjarnarnesbær eru um 10% hærri en Kópavogur er aðeins sjónarmun á undan.
Munurinn minnkar lítillega
Í samantektinni er einnig reynt að greina hvort munurinn sé að aukast eða minnka miðað við þróunina á fyrri helmingi þessa árs. Gagnvart Fjarðabyggð og Múlaþingi er munurinn heldur að minnka, einkum í fjölbýli og sérbýli.
Greiningin byggir á upplýsingum um kaupsamninga úr safni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á árunum 2021-2024 og á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Aðeins er miðað við samninga úr þéttbýli.
Íbúðaverð langt yfir kaupmætti
Í athuguninni var skoðað hversu miklu fjarlægð frá Reykjavík réði um verðmuninn. Meiru virðist skipta hvort sveitarfélagið sé fjölmennt eða fámennt. Þannig koma Múlaþing, Fjarðabyggð og síðan Akureyri og Akranes tiltölulega vel út.
Athygli er vakin á því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu og raunlaun eða kaupmáttur á Íslandi fylgist nokkuð vel að í gegnum tíðina, með nokkrum undantekningum. Ein slík stendur yfir núna þar sem íbúðaverð er hátt yfir raunlaunum. Slíkt gerðist líka árin 2007 og 2022. Í Glefsum segir að hátt íbúðaverð sé sérstaklega íþyngjandi fyrir þau sem séu að kaupa sér sína fyrstu eign, oftast yngra fólk og fólk með ung börn.
Mynd: Unnar Erlingsson