Skip to main content

Fimm bjargað eftir að skemmtibát hvolfdi á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. maí 2025 14:22Uppfært 19. maí 2025 14:23

Björgunarsveitin Ísólfur bjargaði í nótt fimm einstaklingum sem lentu í sjónum eftir að skemmtibát hvolfdi á firðinum. Varaformaður sveitarinnar segir að fólkið hafi verið í afar góðu ástandi miðað við aðstæður. Báturinn slapp án teljandi skemmda.


Björgunarsveitin var kölluð út um klukkan eitt í nótt með skilaboðum um að litlum mótorbát hefði hvolft á firðinum. Eftir tæpar 20 mínútur var björgunarsveitarfólk komið á slysstað, utarlega í norðanverðum firðinum.

Haraldur Magnús Traustason, varaformaður Ísólfs, segir að aðgerðir hafi gengið vel enda aðstæður eins og best var á kosið í spegilsléttum sjó. Fimm einstaklingar sem voru í bátnum komust upp á kjöl hans og segir Haraldur Magnús að í raun hafi lítil hætta verið á ferðum. Ástand fólksins hafi verið eins gott og mögulegt var.

Auk Ísólfs var björgunarskipið Hafbjörg frá Neskaupstað kallað út ásamt smærri bátum þaðan og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þeirri aðstoð var snúið við þegar búið var að koma fólkinu um borð í Árna Vilhjálms, björgunarbát Ísólfs.

Eftir að hafa flutt fólkið í land snéri áhöfn Árna Vilhjálms aftur á slysstað til að koma bátnum sem hvolfdi á réttan kjöl. Hann var síðan dreginn til hafnar. Haraldur segir bátinn lítið sem ekkert hafa skemmst en hann var gangsettur í morgun.

Aðgerðum lauk á fjórða tímanum í nótt. Ekki er ljóst hvað varð til þess að skemmtibátnum hvolfdi.

Mynd: Björgunarsveitin Ísólfur