Fimm mánaða refsing fyrir árás á unglingspilt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. mar 2022 05:56 • Uppfært 23. mar 2022 05:57
Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann til fimm mánaða skilorðsbundins fangelsis fyrir að ráðast að unglingspilti, liggjandi í götu.
Atvikið átti sér stað á götu úti í austfirsku þéttbýli í kjölfar verslunarmannahelgarinnar 2020.
Ákærði játaði það sem honum var gefið að sök, að hafa veist að unglingspilti og kýlt hann ítrekað í höfuð og hendur þar sem hann lá í götunni, auk þess að sparka með hné í bak hans. Pilturinn marðist, skrámaðist og hlaut eymsli.
Maðurinn var dæmdur til fimm mánaða fangelsisvistar, sem skilorðsbundin er til þriggja mánaða. Var það ákveðið í ljósi játningar, bæði á verknaðinum og bótaskyldu, auk þess sem tafir urðu á málinu hjá lögreglu og ákæruvaldi.
Hins vegar á maðurinn að baki nokkurn brotaferil. Í desember síðastliðnum var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, þar af einn máluð óskilorðsbundið, fyrir minniháttar líkamsárás og kynþáttaníð sumarið 2020. Í janúar í fyrra var hann sektaður fyrir þjófnað og óhlýðni við fyrirmæli lögreglu.
Maðurinn var að auki dæmdur til að greiða 300.000 krónur í miskabætur, en farið var fram á eina milljón fyrir hönd piltsins. Þá þarf maðurinn einnig að greiða um 450.000 krónur í laun lögmanna.