Orkumálinn 2024

Fimm sendir suður vegna líklegrar eiturefnamengunar á Eskifirði

Fimm einstaklingar voru sendir suður til Reykjavíkur með sjúkraflugi á miðvikudaginn var í kjölfar þess að hafa orðið fyrir líklegri gasmengun við löndun á kolmunna á Eskifirði. Fólkið er, eftir því sem næst verður komist, á batavegi.


Mennirnir fimm, starfsmenn Tandrabergs, voru aðfararnótt miðvikudagsins að vinna við að landa kolmunna við fiskvinnslu Eskju á Eskifirði og héldu að því búnu til síns heima vandræðalaust. Það var nokkrum klukkustundum síðar sem þeir fóru að finna fyrir kláða, fengu mikinn roða og slæm útbrot. Hinir fyrstu sem fundur fyrir einkennum höfðu samband við yfirmann sem tryggði þeim fylgd undir læknishendur.

Þá kviknaði strax grunur um eitrun af einhverju tagi. Voru hinir starfsmennirnir vaktir og þeim komið til læknis. Í kjölfar þess var aðgerðaráætlun sett í gang og haft samband við lögreglu og Vinnueftirlitið.

Rannsókn á slysinu er í fullum gangi hjá Vinnueftirlitinu en svo vel vildi til að tveir eftirlitsmenn þeirra voru á Eskifirði þegar tilkynning kom um málið.

Guðmundur Mar Magnússon, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu, segir málið litið alvarlegum augum. Búið sé að útiloka að um einhvers konar súrefnismettun hafi verið um að kenna og líkur bendi til að um eiturefnamengun sé að ræða og þá gasmengun. Þar um að ræða gastegund sem kolmunninn gefur gjarnan frá sér þegar hann sé troðfullur af átu eins og raunin er svo seint á vertíðinni. Gas safnist fljótt saman í litlum eða lokuðum rýmum en það taki gjarnan nokkurn tíma, eins og í þessu tilfelli, að finna fyrir beinum áhrifum.

Guðmundur segir ennfremur að þetta sé þekkt vandamál þegar mikil áta er í kolmunna þó góðu heilli séu slík tilvik mjög fátíð. Hann ítrekar að rannsókn sé enn ekki lokið og því engu hægt að slá endanlega föstu.

Ekki fást nákvæmar upplýsingar um líðan mannanna fimm en þó fengist staðfest að þeir eru allir á batavegi og eru komnir aftur til síns heima.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.