Fimm skip með meira en 2000 tonn í hverri löndun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. feb 2022 10:56 • Uppfært 14. feb 2022 10:59
Fimm skip hafa landað meira en 2000 tonnum af loðnu í hvert skipti á yfirstandandi vertíð. Áætlað aflaverðmæti er um 22 milljarðar króna.
Þetta má sjá í nýjasta vikuyfirliti Loðnufrétta.
Norðfjarðarskipin Börkur og Beitir eru þau skip sem mest hafa veitt á vertíðinni. Börkur hefur landað alls 24.322 tonnum í 11 skipti eða 2211,1 tonnum hverju sinni. Beitir hefur skilað 21.739 tonnum alls eftir 11 ferðir eða 2174 að meðaltali.
Hæsti meðalaflinn er hjá Vilhelm Þorsteinssyni EA eða 2548,2 tonnum að meðaltali í átta ferðum. Heildaraflinn er 20.386 og er það í þriðja sæti.
Næst hæsta meðaltalið er hjá Venus frá Vopnafirði, 2266. Eitt annað skip kemst yfir 2000 tonna markið, Sigurður VE með 2048 tonn.
Kvótinn um það bil hálfnaður
Vertíðin nú er um það bil hálfnuð, búið að veiða um 318.000 tonn af þeim 662.000 tonna kvóta sem gefinn var út í haust. Það er þó með þeim fyrirvara að kvótinn verði ekki minnkaður, en rannsóknaleiðangur í janúar gaf til kynna að svo gæti farið. Skip Hafrannsóknastofnunar eru nú í öðrum leiðangri til að fá gleggri mynd og voru í morgun stödd úti fyrir Eyjafirði.
Samkvæmt útreikningum Loðnufrétta er áætlað aflaverðmæti á vertíðinni komið í tæpa 22 milljarða króna. Framundan er síðan verðmætasti tími vertíðarinnar, hrognavinnslan.
Norðmenn telja sér mismunað
Annað sem gæti spilað inn í kvótamálin er árangur, eða árangursleysi norskra skipa á vertíðinni. Veiðar þeirra hafa gengið illa að undanförnu vegna brælu og hæpið virðist nú að þau nái að veiða kvóta sinn í íslensku lögsögunni fyrir 22. febrúar.
Norski sjávarútvegsráðherrann, Björnar Skjæran, hafði í síðustu viku samband við Svandísi Svavarsdóttur til að viðra óánægju sína með það sem Norðmenn telja mismunum gagnvart þeirra skipum í íslenskri lögsögu.
Norsku skipin mega aðeins veiða með nót, en önnur skip byrjuðu að nota hana í síðustu viku. Þá eru Norðmenn ósáttir við að mega aðeins veiða með takmörkuðum fjölda skipa og á afmörkum svæðum. Í norskum miðlum er haft eftir Skjærnan að íslensk skip búi ekki við þessa mismunum í norskri lögsögu. Björnar kveðst hafa fengið þau svör frá Svandísi að þessu reglugerð væri nýleg og ekki væri vilji hjá Íslendingum til að breyta henni strax. Björnar segir því að ekki séu neinar líkur á að að aðstæður Norðmanna batni á þessu ári en samræðunum verði haldi áfram.