Fimmtán milljóna viðbótarkostnaður vegna skerðingar á orku

Fimmtán milljóna kostnaður fellur á Fjarðabyggð vegna skerðingar á ótryggri orku í vetur. Kyndistöðvar Hitaveitu Fjarðabyggðar treysta á slíka orku.

Þetta kemur fram í minnisblaði fjármálastjóra sem bæjarráð tók fyrir á síðasta fundi. Landsvirkjun stöðvaði sölu á ótryggri orku til kyndistöðvanna þann 18. janúar. Það ástand varði í 110 daga, eða fram til 8. maí.

Kyndistöðvarnar, eða fjarvarmaveiturnar, tryggja hitun til stórnotenda í Neskaupstað og á Reyðarfirði. Ekki fellur til sérstakur aukakostnaður á Hitaveituna sem veltir kostnaðinum á viðskiptavini sína, en hún er sjálfstætt félag innan B-hluta sveitarsjóðs.

Meðal viðskiptavina hennar eru hins vegar stofnanir sem heyra undir Fjarðabyggð. Aukinn kostnaður upp á 15 milljónir fellur á þær, eða sveitarfélagið. Langstærstur hluti þess er vegna íþróttamiðstöðvarinnar og sundlaugarinnar í Neskaupstað, eða tæpar 8 milljónir króna. Kostnaður grunnskólanna á Reyðarfirði og í Neskaupstað er um 1,5 milljón og rúm milljón fyrir Breiðablik, íþróttahús Reyðarfjarðar og leikskólann þar.

Í minnisblaðinu kemur fram að samningur við Tandraorku um heitt vatn, framleiddu með brennslu viðarperlna, hafi hjálpað mikið og samstarfið verið gott. Tandraorka lagði til sjálfstæðar kyndistöðvar sem voru annars vegar á Reyðarfirði, hins vegar á Neskaupstað. Stöðin á Reyðarfirði var dugði nánast til að halda sjó.

Notkunin í Neskaupstað var meiri og þar þurfti því einnig að brenna olíu. Þá var gripið til sparnaðarráðstafana, svo sem styttingu opnunartíma sundlaugarinnar.

Fram kemur að heildarorkukaup á tímabilinu hafi numið 44,2 milljónum króna en áttu að vera 21 milljón samkvæmt fjárhagsáætlun. Þar af námu kaupin af Tandraorku 35 milljónum. Áætlað er að kostnaðurinn hefði verið fimm milljónum hærri ef alfarið hefði verið keypt olía.

Að endingu segir í minnisblaðinu að skerðingin hefði ekki þurft að koma til ef nýtt tengivirki væri komið við Hryggstekk í Skriðdal. Þá hefði Austurland fylgt Norðurlandi þar sem engar skerðingar voru. Talað er um „vanfjárfestingar í dreifikerfi Landsnets.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.