Fiskvinnsla á Seyðisfirði til vors

Síldarvinnslan hefur ákveðið að fresta lokun bolfiskvinnslunnar á Seyðisfirði um fjóra mánuði eða þar til í lok mars 2024. Með þessu er vonast til að auðveldara verði fyrir starfsfólk að finna sér nýja vinnu. Fyrirtækið leggur til að Ofanflóðasjóður kaupi vinnsluhúsnæðið og andverðið verði nýtt í að byggja upp húsnæði fyrir nýja atvinnustarfsemi.

Þetta kemur fram í svarbréfi Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar, við áskorun sveitarstjórnar Múlaþings um að endurskoða ákvörðun um að loka vinnslunni.

Síldarvinnslan tilkynnti um miðjan september um að vinnslu yrði hætt 30. nóvember næstkomandi þar sem búnaður vinnslunnar ræður ekki við þær kröfur sem uppi eru á mörkuðum í dag. Um þrjátíu manns vinna í vinnslunni og voru þeim boðin störf við vinnslurnar í Neskaupstað og Grindavík auk þess sem nokkur störf voru í boði við fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði.

Síldarvinnslan lýsti einnig vilja sínum til samstarf við Múlaþing um aðgerðir í atvinnumálum til að milda höggið af lokun vinnslunni.

Hafa reynt að efla starfsemina við höfnina


Í erindi Múlaþings er Síldarvinnslan hvött til að skoða nánar möguleika á að nútímavæða vinnsluna þannig hún standist kröfur markaða. Að öðrum kosti er óskað eftir að lokuninni verði frestað um ár.

Þar er vikið að því að Seyðisfjörður sé enn í sárum eftir aurskriðurnar í desember 2020. Unnið hafi verið að því að efla samfélagið þar á ný, meðal annars með að stækka höfnina og athafnasvæði fyrir hafnsækna starfsemi.

Hætta vinnslu þegar ferðaþjónustan fer í gang


Í svari Síldarvinnslunnar segir að ákvörðun hafi ekki verið léttvæg en ekki séu forsendur í rekstrinum til þeirra fjárfestinga sem til þurfi, fyrir utan að rekstrarumhverfið breytist hratt.

Fyrirtækið vilji hins vegar koma til móts við óskir Múlaþings en ekki síður hagsmuni starfsfólks með að fresta lokuninni þannig síðasti vinnsludagur verið 31. mars og starfsfólkið á launum út apríl. Þannig klári fólk orlofsárið og fái fullt sumarfrí á launum auk þess sem vinnu ljúki á sama tíma og ferðaþjónustan sé að fara í gang á Seyðisfirði. Þannig eigi fólkið auðveldara með að fá vinnu.

Vilja að Ofanflóðasjóður kaupi húsið


Í bréfinu er ítrekaður vilji Síldarvinnslunnar til að vinna að framtíðar atvinnustarfsemi á Seyðisfirði því fyrirtækið geri sér grein fyrir áhrifum lokunarinnar á samfélagið. Það lýsir sig tilbúið að fjárfesta í fjárhagslega sjálfstæðum og arðbærum á Seyðisfiðri.

Síldarvinnslan segir húsnæði vinnslunnar til ráðstöfunar. Þar stendur að hluta á hættusvæði C og til skoðunar hafa verið varnarkosti. Síldarvinnslan leggur til að Ofanflóðasjóður kaupi húsið og söluandvirðið renni til sameignarfélags í eigu heimafólks sem byggi upp atvinnuhúsnæði, svo sem skrifstofuklasa eða iðngarða, á öruggum stað á Seyðisfirði.

Starfshópur um framtíðarvalkosti í atvinnumálum


Í bókun byggðaráðs Múlaþings er lýst vonbrigðum með að Síldarvinnslan sé ekki reiðubúin að hætta við lokunina. Hins vegar meti ráðið það að lokuninni sé frestað sem gefi aukið svigrúm til aðgerða.

Sveitarfélagið hefur lokið við skipun þriggja fulltrúa sinna í samráðshóp sem á að greina valkosti um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði. Frá Múlaþingi koma bæjarfulltrúarnir Þröstur Jónsson frá minnihluta og Vilhjálmur Jónsson úr meirihluta auk Margrétar Guðjónsdóttur, fulltrúa í heimastjórn. Í hópnum verða einnig fulltrúar frá Austurbrú og Síldarvinnslunni. Atvinnu- og menningarstjóri Múlaþings, Aðalheiður Borgþórsdóttir, mun vinna með hópnum.



 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.