Fjalla um einu ljósmyndastofuna á Borgarfirði í snöggsprottnu safnahúsi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. maí 2025 14:25 • Uppfært 22. maí 2025 14:28
Söfnin í Safnahúsinu á Egilsstöðum hafa í dag flutt starfsemi sína yfir í Fjarðarborg á Borgarfirði. Með í farteskinu er meðal annars örsýning um einu ljósmyndastofuna sem vitað er um á Borgarfirði og manninn að baki henni.
„Hugmyndin að baki þessu er að ná til íbúa og vekja athygli á söfnunum og starfsemi þeirra. Bókasafnið kom með þá hugmynd að fara með bækur og pantanir til íbúa og okkur hinum langaði að vera með,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, héraðsskjalavörður.
Í safnahúsinu starfa Bókasafn Héraðsbúa, Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga, en undir því er Ljósmyndasafn Austurlands.
Smiður, kaupmaður og ljósmyndari
Í safnakosti þess eru myndir úr safni Bjarna Þorsteinssonar úr Höfn sem rak ljósmyndastofu á Borgarfirði á árunum 1897-1900, þá einu sem vitað er um þar. „Björn er uppalinn í Höfn en flutti síðan til Kaupmannahafnar þar sem hann lærði trésmíði og ljósmyndun.
Hann starfrækti ljósmyndastofu þar áður en hann flytur heim árið 1897 og kemur á fót verslun og ljósmyndastofu í Höfn. Hann smíðaði meðal annars kaupfélagshúsið fyrir verslun sína. Ljósmyndirnar tók hann úti í Höfn en hefur trúlega líka ferðast um sveitir.
Bjarni flutti síðar til Vopnafjarðar og var með verslun og ljósmyndastofu þar í þrjú ár. Þá brann stofan og hann flutti til Ameríku, trúlega ásamt stórfjölskyldu tengdaföður síns, Jóns Jónssonar þingmanns frá Sleðbrjót, sem hafði orðið gjaldþrota.
Í okkar safni eru um 100 myndir teknar af Bjarna. Þar á meðal er trúlega mynd af elsta manninum sem til er í frumriti á safninu, sá var fæddur árið 1818,“ segir Stefán Bogi.
Ekki tengja allir sem sjá myndir Bjarna þær strax við Borgarfjörð. „Myndirnar eru merktar „B. Þorsteinsson, Höfn“. Það eru sennilega fleiri í dag sem halda að sá maður hafi komið frá Höfn í Hornafirði en svo er ekki.“
Handverk Málfríðar Jónsdóttur frá Kolmúla
Minjasafnið er með litla sýningu um Málfríði Jónsdóttur frá Kolmúla í Reyðarfirði. Hún missti sjón og að miklu leyti heyri í kjölfar veikinda um tíu ára aldurinn. Málfríður var einstaklega viljasterk, lauk fullnaðarprófi 14 ára gömul og þaðan áfram í nám í sérstökum blindraskóla í Danmörku eftir vetrardvöl í Reykjavík þar sem hún lærði dönsku og blindraletur.
Málfríður kom heim og ætlaði að vinna að málefnum blindra, en varð lítt ágengt og hugðist fara aftur til Danmerkur en heimsstyrjöldin hindraði það. Hún snéri þá austur. Eftir hana liggur glæsilegt handavinnusafn, en munir hennar voru meðal annars seldir erlendis.
Auk sýningarinnar um Málfríði er Minjasafnið með muni sem tengjast Borgarfirði, svo sem gamla vöggu, dúngrind og söðulsessur.
Í morgun komu skólabörn í heimsókn til safnanna en frá klukkan 13-18 er opið fyrir almenna gesti. „Söfnin starfa fyrir fólkið og íbúana og þetta er ákveðin viðleitni til að færa starfsemina nær þeim. Við höfum hvatt fólk til að kíkja til okkar hafi það skjöl eða myndir sem það er óvisst um hvort eigi erindi á safni. Við vonumst eftir samtali við fólk og hvetjum því fólk til að kíkja við.“
Mynd: Eyrún Hrefna Helgadóttir