Fjallvegum væntanlega lokað í kvöld
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. feb 2022 13:52 • Uppfært 21. feb 2022 14:12
Vegagerðin hefur varað vegfarendur við að búast megi við lokunum á vegum seinni partinn í dag og kvöld. Þá hefur Landsnet sent frá sér viðvörun vegna mögulegra raforkutruflana.
Vegagerðin sendi frá sér í hádeginu lista yfir vegi sem settir verða á óvissustig og jafnvel lokað í kvöld vegna óveðurs.
Samkvæmt listanum má búast við lokunum á Fjarðarheiði frá klukkan 17 í dag og Fagradal frá 21 í kvöld. Verði vegunum lokað verða nýjar upplýsingar um ástandið ekki gefnar út fyrr en klukkan átta í fyrramálið.
Þá er búið að ákveða að loka Mývatns- og Möðrudalsöræfum frá klukkan 19 í kvöld. Nýjar upplýsingar koma klukkan níu í fyrramálið.
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir allt landið. Á Austurlandi gildir hún frá 11 í kvöld til sjö í fyrramálið. Á þeim tíma verður ekkert ferðaveður.
Í tilkynningu Landsnets segir að hætta sé á áraun á raflínur vegna vinds og ísingar á Austfjörðum.