Fjarðabyggð féll: Stefnt á að halda öllum lykilmönnum

ImageFormaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar segir félagið stefna að því að halda öllum lykilmönnum sínum. Liðið féll úr 1. deild um helgina eftir 9-1 ósigur gegn Þór á Akureyri.

 

Aðeins munaði einu stigi á Fjarðabyggð og Gróttu, sem hélt sér í deildinni, að lokum en Grótta jafnaði á seinustu mínútunum gegn Njarðvík. Stigin ein hefðu ekki dugað til þar sem Fjarðabyggð var eftir slátrunina á Akureyri komið með verra markahlutfall.

Aron Smárason skoraði mark Fjarðabyggðar í upphafi seinni hálfleiks úr víti. Þórsarar voru komnir í 2-0 eftir tíu mínútur og orðnir manni fleiri því Daníel Guðmundsson var rekinn út af fyrir að brjóta á sóknarmanni sem var kominn einn í gegn.

Þau mörk hafa farið illa í Fjarðabyggðarmenn sem segja hafa verið brotið á markverði sínum, Pétri Kristinssyni í aðdraganda þess fyrra og aldrei hafi verið um snertingu að ræða þegar Daníel var rekinn út af. Andra Þór Magnússyni var einnig vikið af velli í lok leiksins með tvö gul spjöld.

Bjarni Ólafur Birkisson, formaður KFF, segir sumarið hafa einkennst af miklum meiðslum sem hafi tekið sinn toll.

„Sumarið hefur verið erfitt og köllum við það meiðslasumarið mikla. Haukur Ingvar fyrirliði meiddist í vor og spilaði ekkert með, síðan kemur áfallið með Rafn Heiðdal. Margir aðrir leikmenn spila síðan meiddir lungan úr sumrinu en engin alvarleg meiðsli þar þó.

Það var ekki fyrr en í síðustu leikjum að liðið fór að hala inn stig en síðan vantar þrjá stóra pósta á Akureyri vegna leikbanns og meiðsla, þá þeir Rajko (Srdjan Rajkovic markvörð), Grétar (Ómarsson) og Jói Ben (Jóhann Benediktsson).

En við stilltum upp ágætis liði sem einfaldlega mætti ofjarli sínum enda spilaði Þór frábærlega í leiknum og ekki skemmdi fyrir gleðinni hjá þeim að dómari leiksins færði þeim tvö fyrstu mörk leiksins á silfurfati á fyrstu níu mínútunum ásamt því að reka Daníel Guðmundsson varnarmann Fjarðabyggðar af velli.

Eftir þetta varð róðurinn gríðarlega erfiður og því fór sem fór.“

Fjarðabyggð mætir í 2. deildinni nágrönnum sínum úr Hetti en mörg lið af norðanverðu landinu, til dæmis Dalvík/Reynir, Tindastóll og Hvöt verða í deildinni. Bjarni segir stefnuna á að „halda öllum lykilmönnum“ og byggja á leikmönnum úr yngri flokkum.

„Annar flokkur félagsins fór upp um deild og mikil efni í yngri flokkum bæði karla og kvenna. Við munum halda áfram að byggja félagið á heimamönnum eins og kostur er og gefa yngri leikmönnum tækifæri í meistaraflokki því þeir eru framtíðin. Bestu dæmin um lið sem hafa gert einmitt þetta undanfarin ár eru Þór og Breiðablik.“

Hér má sjá myndband með helstu atvikum leiksins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.