Skip to main content

Fjarðaheiðin einn hættulegasti vegur landsins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. ágú 2010 23:01Uppfært 08. jan 2016 19:21

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar minnir á að samkvæmt úttekt Euro RAP á íslenska vegakerfinu sé vegurinn yfir Fjarðaheiði einn hættulegasti vegur landsins. Slysahætta er sögð mikil á veginum. Bæjarstjórnin vill að göng undir heiðina verði sett á samgönguáætlun strax í haust.

 

Euro RAP gefur vegum stjörnugjöf fyrir öryggi og slysahættu þar sem mest er hægt að fá eina stjörnu. Á áhættukorti fær vegurinn eina stjörnu en kortið er tekið byggt á slysasögu með tilliti til lengdar og umferðarmagns.

Vegurinn fær tvær stjörnur fyrir öryggi en bent er á að vegurinn sé mjög hár og brattir fláar á honum nær alla leið.

Í tilkynningu sem bæjarstjórnin sendi frá sér í dag segir að Seyðfirðingar hafi lengi bent á nauðsyn þess að ráðast í göng undir Fjarðarheiði. Sú barátta hafi staðið í um þrjátíu ár. Að baki henni séu bæði rök fyrir öryggi, mannlífi og atvinnulífi.

Því sé ekki annað ásættanlegt en Fjarðarheiðargöng verði sett á áætlun stjórnvalda í haust „þannig að ekki sé vafi um að í gerð þeirra verði ráðist.“