Fjarðalistinn bætir við sig fylgi en ekki manni
Fjarðalistinn bætir við sig rúmlega 8 prósentustiga fylgi í Fjarðabyggð frá seinustu kosningum miðað við skoðanakönnun sem Fréttablaðið birtir í dag . Engar breytingar verða samt á fulltrúafjölda.
Fjarðalistinn mælist með 42,1% fylgi en fékk 33,8% atkvæða í kosningunum 2006 og fær líkt og þá fjóra fulltrúa. Hann bætir við sig 8,3 prósentustigum.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 36.4% fylgi en fékk 32,6% í kosningunum og bætir við sig 3,8 prósentustigum. Hann fær þrjá menn kjörna eins og hann hefur.
Framsóknarflokkurinn tapar fylgi, fer úr 25% í 21,5% en heldur báðum bæjarfulltrúum sínum og tapar 3,5% prósentustigum.
Biðlistinn, sem bauð fram 2006, er ekki með að þessu sinni en fékk þá 5,9%.
Konur eru líklegri til að kjósa Fjarðalistann eða 47% en tæp 37% karla. Karlar eru líklegri til að kjósa Framsóknarflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn en munurinn er ekki jafn mikill.
Hringt var í 600 manns í gærkvöldi og tóku 55% afstöðu. Valið var með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri.