Fjarðabyggð: Ekki sammála um hverju megi þakka góða afkomu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. maí 2025 18:22 • Uppfært 27. maí 2025 18:22
Bæði fulltrúar minni- og meirihluta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar leggja áherslu á að sýna aðgæslu í fjárútlátum til framtíðar þótt afkoma síðasta árs hafi verið góð. Fulltrúarnir eru heldur ekki alveg sammála um hvað hafi skilað þessum góða árangri.
Samkvæmt ársreikningi ársins 2024 var rekstrarniðurstaða samstæðu Fjarðabyggðar jákvæð um rúman milljarð, þar af um 420 milljónir frá A-hluta. Áætlun hafði gert ráð fyrir 200 milljóna afgangi frá A-hlutanum og 624 milljónum í heildina. Veltufé frá rekstri var jákvætt um 2,3 milljarða í heildina, þar af 1,3 milljarða úr A-hluta.
A-hlutinn eru þau verkefni sem fjármögnuð eru með skatttekjum, á borð við útsvar og fasteignagjöld, meðan B-hlutinn eru sérverkefni fjármögnuð með sértekjum. Hjá Fjarðabyggð fer þar mest fyrir hafnarsjóði.
Bæjarfulltrúar fögnuðu niðurstöðunni á bæjarstjórnarfundi fyrr í þessum mánuði þar sem ársreikningurinn var staðfestur. Þeir voru hins vegar ekki alveg sammála um forsendurnar eða hvað ber að varast í framtíðinni.
Tekjur af slitum Skólaskrifstofu Austurlands
Í bókun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks segir að niðurstöðurnar sýni viðsnúning sem byggi á góðri vinnu og samstöðu innan bæjarstjórnar, sem og hjá starfsmönnum. Í bókun minnihluta Fjarðalistans segir að árangurinn byggi á markvissri vinnu síðustu ára og jákvæðri breytingu ytri áhrifaþátta.
Í bókun Fjarðalistans er vakin athygli á því að Fjarðabyggð hafi bókfært tæpar 200 milljónir króna í tekjur vegna slita á Skólaskrifstofu Austurlands. Þær komi aðeins einu sinni. Þá hafi kjarasamningsbundnar launahækkanir verið lægri en reiknað var með í fyrra heldur komi inn á þessu ári.
Í umræðum um ársreikninginn sagðist þó Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks, bjartsýnn á að kjarasamningarnir og ákvæði í þeim, meðal annars um virðismat, skili árangi til lengri tíma litið.
Með ytri áhrifaþáttum vísaði Fjarðalistinn til lægri verðbólgu, þannig að fjármagnstekjukostnaður A-hluta fór niður um 96 milljónir, eins og reiknað er með. Þá hefur hægst á vexti lífeyrissjóðsskuldbindinga en nýjar reikniforsendur hafa reynst sveitarfélögunum þungar síðustu ár.
Ósammála um hvort pólitískar ákvarðanir hafi fækkað stöðugildum
Launakostnaður, einkum í A-hlutanum, var undir áætlun. Heildar launagreiðslur voru 5,1 milljarður en áætlunin gerði ráð fyrir 5,42 milljörðum. Á móti fór annar rekstrarkostnaður fram úr áætlun, var 2,43 milljarðar í stað tveggja. Stöðugildum hjá sveitarfélaginu fækkaði úr 392 í 378.
Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, sagði að það hefði ekki verið pólitískar ákvarðanir að baki fækkun stöðugilda heldur breyting á þjónustuþörf, einkum inni í skólum. Hann sagði einnig upplýsingar um að lægri launakostnaður hefði verið tekinn út í hærri rekstrarkostnaði.
Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði á móti að baki lægri launakostnaði lægi sannarlega pólitísk ákvörðun þegar með meirihlutasamningi frá í mars í fyrra hefði verið lögð áhersla á endurskoðun á þörfinni á nýráðningum í gegnum starfsmannaveltu. Þar með hefði ekki lengur orðið sjálfsagt að störf sem losnuðu væru auglýst.
Vonast til að ná tökum á viðhaldinu
Í bókun meirihlutans segir að framundan séu áskoranir í rekstri vegna aukins kostnaðar, þá í launum og skattheimtu af sjávarútvegssveitarfélögum með hærri veiðigjöldum sem skert geti útsvarstekjur. Þess vegna þurfi að halda áfram að greiða niður skuldir og halda utan um reksturinn.
Fjarðalistinn lýsir á móti áhyggjum á af því að A-hlutinn hafi fengið töluvert lánað hjá B-hlutanum, 413 milljónir eða 314 milljónum meira en áætlað var. Þá hafi flestar fjárfestingar A-hlutans farið fram úr áætlun og endað alls 141 milljón yfir. „Þessar staðreyndir styðja ekki við yfirlýsingar meirihlutans um ábyrga fjárhagsstjórn og markvissa forgangsröðun fjármuna,“ segir í bókuninni.
Jón Björn ræddi þetta atriði og sagði sveitarfélögin enn vera að vinna upp viðhaldsþörf sem myndast hefði þegar skorið var niður eftir fjármálahrunið 2008. Ekkert leyndarmál sé að illa hafi gengið að halda áætlunum en víða hafi verið þörf á stórum aðgerðum og umfang þeirra sé oft ekki ljóst fyrr en framkvæmdir séu hafnar. Jón Björn minnti á miklar eignir íslenskra sveitarfélaga þegar hann sagði þau reka jafn umfangsmikið vegakerfi og ríkið.
Hann sagði að frumskylda sveitarfélags væri að veita þjónustu og til þess þyrfti húsnæði. Eins væri þörf á að komast í fyrirbyggjandi viðhald. Hann sagði vinnu hjá Fjarðabyggð í gangi út frá meirihlutasamkomulaginu um að kortleggja húseignir sveitarfélagsins, nýtingu þeirra og ástand. Vonast er til að samantektin verði tilbúin áður en bæjarstjórn fer í sumarfrí.
Í lok bókunar Fjarðalistans segir að þrátt fyrir fjárfestingu síðustu ára sé enn þörf á fjárfestingum auk annarra áskorana. Því þurfi að sýna aga í fjármálum. Mikilvægt sé á sama tíma að hagræðingin komi ekki niður á þjónustu eða í formi aukinnar gjaldtöku eins og mikil hækkun leikskólagjalda sé dæmi um.