Fjarðabyggð ekki svarað áköllum eldri borgara á Eskifirði um tólf ára skeið

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur ekki svarað ítrekuðum bréfum með óskum og ábendingum frá Félagi eldri borgara á Eskifirði um bráðnauðsynlegt viðhald á félagsheimilinu Melbæ um tólf ára skeið. Þetta er mjög harmað í nýjustu fundargerð bæjarráðs.

Á síðasta fundi bæjarráðs var tekið fyrir enn eitt bréfið frá félaginu þar sem bréfritarar ítreka enn og aftur óskir og áköll um bráðnauðsynlegt viðhald og endurbætur á félagsheimili þeirra Melbæ.

Í þessu nýjasta bréfi harmar félagið það virðingarleysi sem stjórn Fjarðabyggðar hefur sýnt félaginu á liðnum árum en undir það skrifa allir fimm stjórnarmenn félagsins. Þar segir meðal annars:

„Forsaga þessa máls er mjög löng eða allt frá því að félagið tekur við húsinu, sem var [upprunalega] byggt sem leikskóli. Til dæmis er eldhúsið hannað sem afdrep fyrir starfsfólk leikskóla en ekki sem framleiðslueldhús fyrir þá starfsemi sem þar fer fram í dag. Starfsemin því á undanþágum frá þeim reglum sem í gildi eru fyrir hliðstæða starfsemi. [...] Meðfylgjandi eru afrit af samskiptum Félags eldri borgara, heilbrigðiseftirlits og bæjarstjórnar frá árinu 2011. Aldrei hafa yfirvöld látið svo lítið að svara póstum.“

Bréfið fékk umfjöllun í bæjarráði á mánudaginn var þar sem samskiptaleysið var harmað og bæjarstjóra falið að svara þessu síðasta bréfi. Jafnframt lét bæjarráð bóka að „farið verði í viðhald innan ramma fjárhagsáætlunar 2024 og felur bæjarráð sviðsstjóra framkvæmda og umhverfissviðs að fylgja því eftir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.