Fjarðabyggð endurfjármagnar sig með 500 milljóna láni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. jún 2023 14:20 • Uppfært 08. jún 2023 14:22
Fjarðabyggð hefur tekið 500 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga til að tryggja langtímafjármögnun og jafna sjóðsstöðu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu lántökuna en kölluðu eftir frekari aðgerðum í fjármálum sveitarfélagsins. Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista sögðu ófyrirséð atriði í byrjun árs hafa sett fjárhagsáætlun úr skorðum.
Samkvæmt bókunum frá síðasta fundi bæjarstjórnar er lánið meðal annars notað til að greiða upp 200 milljóna skammtímalán sem greiða átti á árinu. Þá segir að lánið sé tekið til að fjármagna framkvæmdir á íþróttamannvirkjum, höfnum og leikskólum.
Lánið, sem er með lokagjalddaga 20. febrúar árið 2039, hefur þau áhrif á fjárhagsáætlun að heildarrekstrarniðurstaða samstæðu sveitarfélagsins versnar um 14,9 milljónir. Á móti hækkar sjóðsstreymi um 311 milljónir.
Meirihlutinn geti ekki farið eftir eigin tillögum
Lántakan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Fulltrúar Sjálfsstæðisflokksins sögðust þó hafa varað við því áður að aðgerða sem þessara gæti orðið þörf og kölluðu eftir frekari aðhaldsaðgerðum.
„Með þessu erum við að fjármagna yfirdrátt sem kominn er upp í topp. Okkur er nauðugur kostur að greiða hann niður. Við afgreiðslu ársreiknings 2022 bókuðum við að óbreyttu færi sveitarfélagið í greiðsluþrot og við þurfum í þessa lántöku því annars endum við í greiðsluþroti,“ sagði Ragnar Sigurðsson, oddviti framboðsins. Hann sagði síðar eiga eftir að fjármagna framkvæmdir eins og viðgerðir á skólahúsnæði á Eskifirði vegna myglu.
Í mars var samþykkt að ráðast í stjórnsýsluúttekt á Fjarðabyggð og var Deloitte fengið til verksins. Ragnar þótti vinnan ganga hægt en sagði þörf að tryggja víðtæka sátt um þær aðhaldsaðgerðir sem ráðist hefði verið í og Sjálfstæðisflokkurinn væri tilbúinn að vinna með meirihlutanum að gerð aðhaldstillagna.
Hann gagnrýndi að tillaga flokksins í bæjarráði í fyrra um að allar auglýsingar um störf færu í gegnum bæjarráð hefði verið felld en ráðið í staðinn samþykkt að kalla forstöðumenn inn á sex vikna fresti til að fara yfir væntanlega starfsmannaþörf. Til þessa hefði aðeins einn forstöðumaður komið fyrir ráðið. „Það er til einskis að leggja fram tillögur ef meirihlutinn getur ekki einu sinni farið eftir eigin tillögum.“
Vinna Deloitte á réttu róli
Elís Pétur Elísson, Framsóknarflokki, sagði lánið tekið til að laga sjóðsstöðu Fjarðabyggðar eftir að sveitarfélagið hefði, eftir að að fjárhagsáætlun ársins var samþykkt, til dæmis viðgerðirnar á skólanum á Eskifirði. Þá hefðu hækkanir í kjarasamningum og mikil verðbólga reynst sveitarfélaginu þungbær. Annars væri unnið að því alla daga að ná betri tökum á rekstri A-hluta, sem fjármagnaður er með skatttekjum.
Þuríður Lillý Sigurðardóttir frá Framsóknarflokki, sagði mannabreytingar meðal sviðsstjóra Fjarðabyggðar hafa haft áhrif á áform um að kalla þá reglulega fyrir bæjarráðið. Bæði hún og Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, Fjarðalistanum, sögðu vinnu Deloitte á réttri braut. Samið hefði verið um að hún stæði frá maí fram í ágúst. Hún fælist ekki bara í að ræða við bæjarráðið heldur fleiri einstaklinga og hópa innan Fjarðabyggðar til að greina stöðuna. Vinnan kostaði umtalsverða fjármuni og máli skipti að þeir nýttust sem best.