Skip to main content

Fjarðabyggð sendir fleiri áskoranir til fjáreigenda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. ágú 2025 11:13Uppfært 26. ágú 2025 11:14

Sveitarfélagið hefur sent áskorun til fjáreigenda sem geta átt von á kindum í landi Áreyja, innst í Reyðarfirði, um að þeir hugi að því hvort þeir eigi fé sem gengur þar. Landeigandi í Stöðvarfirði hefur höfðað skaðabótamál á hendur sveitarfélaginu.


Landeigandi Áreyja sendi fyrr í þessum mánuði erindi til sveitarfélagsins með ósk um að sveitarfélagið smalaði fé sem gengur í hans landi. Í kjölfar þess fóru starfsmenn Fjarðabyggðar á svæðið til að athuga hversu margar kindur væru á ferðinni.

Samkvæmt greinargerð sem lögð var fyrir bæjarráð í gær sáust um 40 kindur vítt og breitt um Áreyjajörðina. Á fundinum var samþykkt að senda áskorun til fjáreigenda, sem eiga von á fé þar, um að sækja fé sitt.

Sambærileg áskorun var send til fjáreigenda á Fáskrúðsfirði sem taldir voru eiga kindur sem sáust í landi Óseyrar í Stöðvarfirði í júlí. Bændurnir hafa tvær vikur til að mótmæla áskoruninni og ef þeir gera það þarf að taka málið fyrir aftur. Fjarðabyggð telur sig bera skyldu til að fara þessa leið til að uppfylla stjórnsýslureglur.

Ábúendur bæði Óseyrar og Áreyja hafa undanfarin sumur óskað eftir að Fjarðabyggð smali fé úr landi þeirra. Einkum ábúendur Óseyrar hafa leitað ásjár Umboðsmanns Alþingis og ráðuneyta í deilum sínum. Umboðsmaður Alþingis áréttaði í bréfi í vetur að lög séu þannig að landeigendur eigi ekki að þola ágang sem geti valdið tjóni og þess vegna þurfi sveitarfélögin að smala. Umboðsmaður beindi því um leið til Alþingis að skoða hvort lögin gangi upp í raun.