Skip to main content

Fjarðabyggð: Sjálfstæðisflokkurinn í 40% en meirihlutinn heldur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. maí 2022 01:41Uppfært 15. maí 2022 01:44

Sjálfstæðisflokkurinn í Fjarðabyggð fékk 40% atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum og bætti við sig tveimur bæjarfulltrúum á kostnað Fjarðalistans. Meirihlutinn heldur samt því Framsóknarflokkurinn bætir líka við sig bæjarfulltrúa.


Lokatölur úr Fjarðabyggð bárust um klukkan hálf tvö í nótt. Fyrstu tölur lofuðu góðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hélt áfram að bæta við sig eftir því sem á leið talninguna. Það breytti þó ekki úrslitunum en þó röð kjörinna fulltrúa.

Að lokum varð Birgir Jónsson, þriðji fulltrúi Framsóknar, síðastur inn og Anna Margrét Arnarsdóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, næst inn. Hana vantaði hins vegar 91 atkvæði í viðbót eða tvo þriðju þeirra atkvæða sem framboð hennar fékk. Arndís Bára Pétursdóttir, þriðji fulltrúi Fjarðalista, hefði þurft 155 atkvæði í viðbót en hún var í fyrstu tölum ekki fjarri því að fella fjórða fulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Heildarkjörsókn í Fjarðabyggð var 63,6%. Á kjörskrá eru 3.683 og alls greiddu 2.344 atkvæði. Í bæjarstjórnarkosningunum 2018 var kjörsókn 64,4%. Auðir seðlar og ógildir voru 78.

Framsóknarflokkur: 695 atkvæði, 30,0%, 3 fulltrúar. Fyrir fjórum árum fékk framboðið 23,6% og tvo fulltrúa.
Sjálfstæðisflokkur: 941 atkvæði, 40,6%, 4 fulltrúar. Fyrir fjórum árum fékk framboðið 25,5% og tvo fulltrúa.
Fjarðalisti: 540 atkvæði, 23,3%, 2 fulltrúar. Fyrir fjórum árum fékk framboðið 34,1% og fjóra fulltrúa.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð: 141 atkvæði, 6,1%, enginn fulltrúi. Framboðið bauð ekki fram 2018.

Þá fékk Miðflokkurinn 16,8% og einn fulltrúa árið 2018.

Bæjarfulltrúar

Framsóknarflokkur
Jón Björn Hákonarson
Þuríður Lillý Sigurðardóttir
Birgir Jónsson

Sjálfstæðisflokkur
Ragnar Sigurðsson
Kristinn Þór Jónasson
Þórdís Mjöll Benediktsdóttir
Jóhanna Sigfúsdóttir

Fjarðalisti
Stefán Þór Eysteinsson
Hjördís Helga Seljan