Skip to main content

Fjarðabyggð stendur sig miður vel að leita sjónarmiða íbúa sinna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jún 2024 13:45Uppfært 12. jún 2024 14:15

Nálega helmingur þátttakenda úr Fjarðabyggð sem þátt tók í nýútkominni Íbúakönnun landshlutanna telur að sveitarfélagið standi sig illa í að leita eftir sjónarmiðum eða skoðunum íbúa sinna. Hlutfall þátttakenda á þessari skoðun á Héraði og í Norður-Múlasýslu er um 34 prósent.

Íbúakönnun landshlutanna var nú framkvæmd í annað skipti á öllu landinu en að henni standa landshlutafélögin utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Byggðastofnun. Könnunin er byggð á tilviljunarkenndu úrtaki en þátttakendur nú voru 11.500 talsins. Þar eru íbúar spurður út í margvísleg málefni eins og hamingju, þjónustu og almenn búsetuskilyrði.

Ein spurningin varðaði íbúalýðræði og hvort íbúum finndist raddar sínar heyrast í stjórnkerfinu á hverjum stað. 48% svarenda í Fjarðabyggð sögðu sveitarfélagið standa sig mjög eða frekar illa að leita sjónarmiða eða skoðana íbúa sinna. Aðeins 12% voru á þeirri skoðun sveitarfélagið stæði sig mjög eða frekar vel. Fjarðabyggð kemur næstverst út hvað þetta varðar í könnuninni nú.

Á Héraði og í Norður-Múlasýslu voru 34% þátttakenda sem sögðu sín sveitarfélög standa sig mjög eða frekar illa hvað íbúalýðræðið varðaði meðan 19% voru á öndverðri skoðun.