Fjarðabyggð tvöfaldar stuðning sinn við Pieta-samtökin
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. sep 2025 11:14 • Uppfært 02. sep 2025 11:24
Bæjarráð Fjarðabyggðar ákvað á fundi sínum í gær að tvöfalda framlag sitt til Pieta-samtakanna. Formaður ráðsins segir að meiri ásókn hafi verið í þjónustu samtakanna heldur en ráð var fyrir gert þegar aðstaða þeirra var opnuð á Reyðarfirði í lok febrúar.
Bæjarráðið samþykkti í gær að hækka framlag sitt fyrir árið í ár úr 700.000 í 1,5 milljón króna. Í lok febrúar var samið við Pieta-samtökin, sem vinna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, um viðtalsaðstöðu, svokallað skjól og fasta viðveru á Austurlandi.
„Samningurinn gerði ráð fyrir einni heimsókn í lok mánaðar auk eftirfylgni sem sinnt er óháð staðsetningu. Síðan kom í ljós að þörfin var mikil, bæði hjá fólki í vanda og aðstandendum, þannig að ljóst varð að samningurinn dugði takmarkað. Það hefur þurft að bæta við heimsóknum.
Samstarfið hefur reynst vel og er vonandi komið til að vera. Samvinna við áfallateymið á Austurlandi hefur verið góð. Það var ljóst að upphafleg upphæð dugði takmarkað og við vildum ekki að hún hamlaði samningnum að neinu leyti, þannig að þessi ákvörðun var tekin,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs.
Í gær hófst gulur september en mánuðurinn er helgaður geðheilbrigðismálefnum. Alþjóðlegur forvarnadagur gegn sjálfsvígum verður 10. september. Í bókun bæjarráðs eru íbúar hvattir til að nýta sér þjónustu Pieta-samtakanna ef þeir telja þörf á.
Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á:
Píeta samtökin, s. 552-2218, Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið 1717.is, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is. Í neyð hringið í 112.
Varðandi stuðning eftir missi í sjálfsvígi er bent á:
Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is, Sorgarmiðstöð, s. 551-4141, og