Skip to main content

Fjarðabyggð vill hlutdeild í tekjum fiskeldisfyrirtækja sem slátra annars staðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. mar 2022 10:33Uppfært 22. mar 2022 10:39

Sveitarfélagið Fjarðabyggð telur nauðsynlegt að endurskoða tekjustofna vegna fiskeldis sem fyrst til að taka á því þegar eldið sjálft fer fram í öðru sveitarfélagi en slátrun fisksins.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í athugasemdum við rekstrarleyfistillögur Matvælastofnunar vegna sjö þúsund tonna fiskeldis í Stöðvarfirði en leyfið var formlega gefið út í vikunni til handa Fiskeldi Austfjarða. Hefur fyrirtækið lengi beðið því óskað var eftir slíku leyfi fyrir fimm árum síðan.

Athugasemdir Fjarðabyggðar eru allnokkrar en eitt meginstefið er tekjufall sökum þess að eldið sjálft fari fram í kvíum í Stöðvarfirði sem tilheyrir Fjarðabyggð en allur fiskur fari í slátrun í sláturhúsi á Djúpavogi sem tilheyrir Múlaþingi. Brýnt sé að endurskoða lög um tekjustofna þegar svo ber undir til að standa undir ýmsum fjárfestingum Fjarðabyggðarhafna vegna eldisins.

Fjarðabyggð gerði jafnframt athugasemd við að staðsetning eldis í Stöðvarfirði geti haft takmarkandi áhrif á alla efnistöku af sjávarbotni og þannig aukið allan kostnað við landfyllingar í framtíðinni sem einnig muni hafa neikvæð áhrif á fjárhag Fjarðabyggðarhafna.

Áður hafði bæjarráð Fjarðabyggðar bókað um nauðsyn þess að horft yrði til hljóð- og ljósmengunar vegna sjókvíaeldisins en Stöðvarfjörður er sem kunnugt er tiltölulega lítill og þröngur og eldiskvíar verða mjög sýnilegar þeim er um fjörðinn fara sem og íbúum sjálfum.

Matvælastofnun fyrir sitt leyti fellst á að áhrif fiskeldis í firðinum muni hafa nokkuð neikvæð áhrif á ferðaþjónustu en bendir á að áhrifin séu tímabundin og afturkræf þegar og ef eldi verður hætt. Þá tekur stofnunin undir kröfuna um að hljóð- og sjónræn áhrif verði í lágmarki.

Stofnunin tekur hins vegar ekki afstöðu til kröfunnar um endurskoðun laga um tekjustofna vegna fiskeldis enda ekki á þeirra könnu.

Mynd: Séð yfir fjörðinn frá versluninni Brekku. Sjókvíar Fiskeldis Austfjarða munu verða vel sýnilegar nánast alls staðar úr þorpinu.