Fjarðarheiðargöng bíða ákvörðunar um gjaldtöku af umferð

Ekki er hægt að bjóða út gerð Fjarðarheiðarganga fyrr en búið er að staðfesta fjármögnun þeirra. Það stendur til að gera með veggjöldum. Beðið er niðurstaðna verkefnastofu tveggja ráðuneyta um framtíð gjaldtöku af umferð.

„Vinna við undirbúning ganganna er í grófum dráttum búin. Þau eru fullhönnuð þótt ekki hafi öll útboðsgögn verið skrifuð,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri.

Samkvæmt drögum að samgönguáætlun 2024-38, sem liggur fyrir Alþingi, eiga framkvæmdir við göngin að hefjast á næsta ári með sjö milljarða fjárframlagi. Til þess að svo megi verða þarf ákvörðun að fara að liggja fyrir því útboðsferlið tekur um ár.

Veggjöld úr göngunum sjálfum ekki nóg


En það vantar upp á fjármögnun ganganna, bæði í núgildandi samgönguáætlun og drögunum. Samkvæmt þeim á að fjármagna göngin með gjaldheimtu af umferð. Bergþóra segir ljóst að veggjöld af umferðinni um göngin muni aldrei standa undir þeim, til þess sé umferðin of lítil miðað við kostnað ganganna.

Þess vegna er horft til einhvers konar almennrar skattheimtu af umferð. Fyrirkomulag hennar til framtíðar er enn óráðið en innviðaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið stofnuðu í fyrra verkefnastofu um gjaldtöku í vegakerfinu. Fyrsta afurð hennar var gjaldheimta á raf- og tvinnbíla sem tók gildi um áramót.

Samgönguáætlun og fyrirkomulag gjaldtöku á umferð


Verkefnastofan var stofnuð til tveggja ára og hefur því enn nokkurn tíma til að ljúka við vinnu sína. Bergþóra segir beðið eftir frumvarpi um annars konar gjaldtöku. „Það er áfangi að komin sé gjaldtaka á hluta bílaflotans en restin er enn óljós. Það liggur ekkert frumvarp fyrir, það er ekki víst hvenær það kemur eða hvernig fjármagnið verði nýtt.“

Tvennt þarf því til að áætlanir um Fjarðarheiðargöng gangi eftir. Annars vegar þarf Alþingi að samþykkja tillögu um samgönguáætlun, hins vegar að ákveða fyrirkomulag gjaldtöku. Mögulegt er að hægt verði að fara af stað með hluta verksins þótt ekki liggi fyrir endanleg samþykkt beggja atriða, gegn því að stjórnvöld gefi leyfi þegar sér til lands.

Útboðsferli tekur eitt ár


Til að áætlanir um upphaf framkvæmda árið 2025 standist þarf slíkt leyfi hins vegar að fara að koma. „Við byrjum á samgönguáætlun, hún miðlar vilja stjórnvalda um að verkefnið sé á áætlun. Við þurfum að fá botn í hana áður en þing fer í frí í vor,“ segir Bergþóra.

Þegar leyfi liggja fyrir á Vegagerðin að vera fljótlega tilbúin í útboð. „Það tekur okkur um þrjá mánuði að hnýta lausa enda og koma af stað forvali. Útboðsferlið sjálft, með samningsgerð, tekur um ár. Mögulega er hægt að byrja á undirbúningi, svo sem vegum að göngunum, ef leyfi liggur fyrir.“

Öll göng tefjast


Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar og forseti bæjarstjórnar Múlaþings, segir að af hálfu sveitarfélagsins sé þrýst á að framkvæmdir hefjist sem fyrst enda hafi tafir á Fjarðarheiðargöngum keðjuverkandi áhrif annars staðar á landinu.

„Ef þessi göng dragast þá seinkar öðrum göngum annars staðar því það eru ekki fjármunir í hönnun annarra ganga. Við erum spennt fyrir að sjá göngin fara í gang og höldum okkar þrýstingi áfram. Við vonum að samgönguáætlun klárist nú á vorþingi.

Það verður ekki rukkað í göngin fyrr en þau eru tilbúin. Áform um gjaldheimtu ættu því ekki að hafa bein áhrif á framkvæmdina. Þar sem útboðsferlið tekur allt að ár þarf að fara að taka ákvörðun.“

Náttúruhamfarir á Reykjanesi hafa þýtt óvænt útgjöld fyrir ríkissjóð. Jónína telur þó hvorki að þau né aðrir utanaðkomandi hættir, seinki Fjarðarheiðargöngum. „Við höfum ekki orðið vör við það því það er talað um að fjármagna göngin sérstaklega. Það er alltaf eitthvað í gangi hér á landi.

Jarðgangagerð hefur verið stopp í nokkur ár. Við verðum að halda áfram með hana því við vitum að það er ekki gott að bíða, það skapar bara meiri þrýsting. Því er mikilvægt að fara í víðtekna gangagerð um allt land. Fjarðarheiðargöng eru næst og við verðum að fara að drífa þau af stað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.