Fjarðarheiðargöng verða að ýmsu leyti keimlík Vaðlaheiðargöngum
Rúmlega þrettán kílómetra löng Fjarðarheiðargöngin sem fyrirhugað er að framkvæmdir hefjist við á næsta ári verða að mörgu leyti keimlík Vaðlaheiðargöngum að sögn Freys Pálssonar, sérfræðings hjá Vegagerðinni.
Fyrir helgi fór fram íbúafundur á netinu vegna Fjarðarheiðarganganna en þar komu að bæði Múlaþing og Vegagerðin og hugmyndin að kynna framkvæmdina og upplýsa íbúa um stöðu mála nú þegar styttist í að framkvæmdir hefjist.
Töluverðar deilur um göngin atarna spruttu upp að nýju á samfélagsmiðlum í byrjun síðustu viku eftir að fjallað var um málið í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2. Þar var meðal annars miklum kostnaði við göngin, um 46 milljarðar króna, deilt niður á íbúafjölda Seyðisfjarðar eins og engir aðrir nyti góðs af göngunum. Vakti það hörð viðbrögð margra og þar á meðal á síðasta sveitarstjórnarfundi Múlaþings þar sem Berglind Harpa Svavarsdóttir sagði slíka fréttamennsku forkastanlega.
Í máli Freys á fundinum var gerð ítarlegri grein fyrir gangagerðinni en áður hefur komið fram. Meðal annars að hábunga verður í miðjum göngunum með eitt prósent veghalla báðum megin en þau verða grafin jafnt frá báðum stöfnum þegar þar að kemur.
„Jarðgöngin fara frá Dalhúsum Héraðsmegin í hæð sem verður kringum 142 metrar [yfir sjávarmáli] og komið út við Gufufoss [Seyðisfjarðarmegin] í um 130 metra hæð. Þetta er það sem við teljum ásættanlega hæð miðað við snjóalög og veður. Jarðgöngin munu hafa hábungu fyrir miðju, þau verða grafin með eins prósents langhalla og eru jafnlöng að hábungunni frá báðum endum og við gerum ráð fyrir að verktaki grafi göngin nokkuð jafnt frá sitt hvorum stafninum.“
„Við áætlum að hafa neyðarrými í göngunum á 500 metra fresti. Þetta rými sem vegfarendur geta þá flúið inn í ef það kemur fyrir atburður eins og bruni með mikilli reykmyndun og þangað verið sóttir af viðbragðsaðila. Tæknirými höfum við á tveggja kílómetra fresti og snúningsútskot sömuleiðis á tveggja kílómetra bili. Göngin munu hafa þversnið 9,5 sem er það sama og í Vaðlaheiðargöngum [sem merkir að vegurinn hallar lítið eitt á annan kantinn]. Þau munu þannig líta út alveg eins og verið sé að keyra gegnum Vaðlaheiðina nema kannski að það er minni veghalli.“