Fjárfesta fyrir tæpar 300 milljónir á Vopnafirði á nýju ári
Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps ráðgerir að fjárfesta 276 milljónum króna rúmum í ýmis konar verkefni í sveitarfélagi á komandi ári samkvæmt nýsamþykkri fjárhagsáætlun. Þá eru tæpar 18 milljónir eyrnamerktar viðhaldsverkefnum.
Hæstu kostnaðarliðir samkvæmt áætluninni verða 100 milljónir króna í lengingu á hafnarkanti auk sömu upphæðar árið 2025. Vegagerðin mun jafnframt kosta til fjármagni vegna þeirrar framkvæmdar.
Fara skal í umfangsmiklar endurbætur á Selárlaug á nýju ári en heildarupphæð til þess verður um 50 milljónir króna alls. Þá verða settar 42 milljónir í malbikum á Miðbraut og Hamrahlíð, rúmar 18 milljónir í Vatnsveituna í Vesturárdal. Um 13,5 milljónum króna verður ráðstafað til Vopnafjarðarskóla en þar skal endurnýja skólalóðina auk viðhalds í bæði gamla og nýrra skólahúsnæðinu. Svipuð upphæð fer til hjúkrunarheimilisins Sundabúðar þar sem bæði skal endurnýju íbúðir í húsinu og bæta útisvæði hússins. Sturtur í íþróttahúsinu verða endurnýjaðar auk þess sem vinna verður sett í hönnun á líkamsræktaraðstöðu í nýrri viðbyggingu íþróttahússins. Þar skal jafnframt koma fyrir heitum potti en alls eru 12 milljónir eyrnamerktar þeim þremur verkefnum. Þá skal og skipta um þak og glugga á Kaupvangi fyrir um 5 milljónir króna.
Um 50 milljónir króna fara til endurnýjunar á Selárlauginni á næsta ári og kætast eflaust margir við þær fréttir.