Fjármagn vantar til að farsímasamband verði tryggt á öllum stofnvegum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. apr 2025 16:52 • Uppfært 23. apr 2025 16:56
Líkur eru á að uppsetning 11 GSM-senda, sem eiga að tryggja símasamband á öllum stofnvegum Austurlands, tefjist þar sem ríkið hefur ekki staðið við fyrirheit um fjármagn, þrátt fyrir að hafa gert kröfur um sendana.
SSA fékk nýverið í hendurnar úttekt á fjarskiptasambandi sem Gagna ehf. annaðist. Í skýrslunni er farið yfir útbreiðslu ljósleiðaratenginga, fjarskiptasambands, Tetra-kerfis og útvarpssendinga á lykilstöðum á Austurlandi.
Athyglin í skýrslunni beinist einkum að farsímasambandi á stofnvegum. Á Austurlandi eru það Hringvegurinn, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði, Hellisheiði, Vatnsskarð, Breiðdalsheiði og Norðfjarðarvegur sem falla undir þá skilgreiningu.
Þegar Fjarskiptastofnun stóð síðast fyrir tíðniútboði árið 2023, sem er í raun starfsleyfisveiting til fjarskiptafyrirtækjanna, var kveðið á um uppsetningu senda til að tryggja farsímasamband á öllum stofnvegum. Þeir voru flokkaðir og var þeim forgangsraðað þannig að fyrir lok árs 2026 átti að vera búið að tryggja samband á þeim öllum en með auknum hraða á Hringvegi, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Norðfjarðarvegi strax árið eftir en hinum árið 2031.
Forsenda þessa eru 11 nýir sendar á Austurlandi. Þrír áttu að dekka Vatnsskarð og Borgarfjörð, tveir Skriðdal, tveir nesin sitthvoru megin Stöðvarfjarðar, einn Berufjörð, annar Hamarsfjörð og sá þriðji Streitishorn. Loks átti að koma sendir á Fagradal til að dekka þekkta eyðu nærri Grænafelli.
Verulegur dráttur vegna fjárskorts
En á það er bent í skýrslunni að þessir sendar séu ekki í augsýn því ríkið hafi ekki staðið sig í að setja fjármagn til Öryggisfjarskipta ehf., systurfélags Neyðarlínunnar. Öryggisfjarskipti halda utan um verkefnið með því að tryggja aðflutning að sendastöðunum en fjarskiptafélögin setja þá upp. Þau hafa sérstaka heimild til þess að vinna saman að því.
Í tilkynningu, sem Fjarskiptastofnun sendi frá sér skömmu fyrir jól, segir að talsverður árangur hafi náðst í að bæta samband á stofnvegum en nú sé útlit fyrir að „verulegur dráttur“ geti orðið á framhaldi verksins. Þar segir að staðan verði endurmetin að ári, sem þýðir að verklokum hefur þegar verið frestað um ár, en gangi fjármögnun ekki þá gæti þurft að breyta verkinu.
Sambandi víða ábótavant utan stofnvega
En stofnvegirnir segja ekki alla söguna. Engar kvaðir eru á símafélögum á öðrum vegum aðrar en að sambandið verði ekki skert frá því sem það var 1. janúar 2023
Við skýrsluskrifin var fyrst og fremst unnið með fyrirliggjandi gögn, ýmis opinber eða fengin frá fjarskiptafyrirtækjum, um dekkun í byggð og á stofnvegum. Ekki var lagt í sjálfstæðar rannsóknir á öðrum vegum, fjölsóttum stöðum eða mikilvægum svæðum. Í kortum fjarskiptafyrirtækjanna má til dæmis sjá eyður úti á sjó, út af Gerpissvæðinu og Glettingi.
Hins vegar var óskað ábendinga um veika punkta, einkum frá viðbragðsaðilum og urðu þær um 80 talsins. Á meðal þeirra staða sem bent var á voru Öxi, Snæfell, dalirnir í Fljótsdal, Víknaslóðir, Stórurð og Páskahellir. Þá hefur ekkert samband verið við Stuðlagil en það stendur til bóta á þessu ári. Eins eiga að koma upp nýir sendar við Hallormsstað og Eiða.
Ekki voru heldur mæld gæði farsímasambands í þéttbýli en við samantektina var til dæmis bent á lélegt samband við Breiðdalsvík. Í skýrslunni segir að alltaf verði staðir með misgóðu sambandi.
Álagsprófanir voru heldur ekki gerðar. Í fundargerðum almannavarnanefndar Austurlands má finna ábendingar um að þegar skemmtiferðaskip séu í höfn á Djúpavogi hafi notendur þar orðið svo margir að farsímakerfið réði ekki við það. Úr því mun hafa verið bætt fyrir síðasta sumar. Þar kemur einnig fram að skipin séu sum svo stór að þau skyggi á sjónlínu sendanna.
Þyrfti ljósleiðaratengingar úr tveimur áttum
Að öðru leyti er staða farsímakerfisins á Austurlandi ágæt. Verið er að skipta út 2G og 3G kerfum fyrir 4G og 5G. Ætlast er til að 99% heimila í landinu nái 5G fyrir lok árs 2027. Það er komið á öðrum helstu þéttbýlisstöðum en Borgarfirði.
Eftir að ríkið flýtti stuðningi sínum við ljósleiðarauppbyggingu á síðasta ári er staða þess kerfis að verða nokkuð góð, en fyrir var hún sérstaklega veik í Fjarðabyggð. Þó eru nokkrir staðir þar sem samband er aðeins úr einni átt, eins og Neskaupstaður.
Engar áætlanir um Tetra-kerfið
Áhyggjur eru af Tetra-kerfinu, sem viðbragðsaðilar nota og Neyðarlínan rekur. Þar má nefna staði eins og Loðmundarfjörð, Öxi, Breiðdalsheiði, Vatnsskarð og Hellisheiði en líka Stuðlagil þar sem samband er lélegt, eða jafnvel ekkert. Engar úrbætur liggja fyrir vegna fjárskorts.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.