Fjármagni flýtt í ofanflóðamannvirki
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. sep 2025 13:34 • Uppfært 09. sep 2025 14:09
Til stendur að bæta rúmum milljarði við á fjárlögum næsta árs til að flýta fyrir gerð varnarmannvirkja gegn ofanflóðum. Níu milljarðar bætast við samgöngur en lítið er í fjárlagafrumvarpinu að finna um væntanlega forgangsröðun framkvæmda.
Þetta er meðal þess sem lesa má út úr fjárlagafrumvarpi ársins 2026 sem Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, kynnti í gær.
Fjárheimild fyrir framkvæmdir undir Nes- og Bakkagiljum í Neskaupstað er hækkuð um 300 milljónir króna. Verið er að færa heimildir frá árinu 2028 tvö ár fram í tímann til að flýta framkvæmdum. Þá er 750 milljónum bætt við Ofanflóðasjóð, meðal annars vegna framkvæmda undir Bjólfi á Seyðisfirði. Bæði verkin eru í fullum gangi og hafa gengið vel. Þá er í frumvarpinu bætt við 250 milljónum til Veðurstofunnar til að ráðast í átak í gerð hættumats vegna náttúruvár.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið ætlar að ráðast í fulla jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku á landsbyggðinni. Fjárheimild er fyrir hendi til þess.
Níu milljarða aukning í samgöngumál
Samgöngumál er málaflokkur sem ávallt vekur athygli Austfirðinga. Í þau eru ætlaðir tæpir 73 milljarðar á næsta ári, sem er hækkun um sjö milljarða. Þar af er 4,5 milljörðum varið til endurbóta á vegum og brúm sem þurfa viðhald. Önnur heimild gerir ráð fyrir að fleiri tengivegir verði klæddir.
En það heyrir fleira undir þennan lið en vegagerð. Gert er ráð fyrir endurbyggingu og endurbótum á höfnum en Seyðisfjarðarhöfn er meðal þeirra sem þar eru taldar upp. Undir flugmálum má finna setningu um áherslu um eflingu varaflugvallanna en einn þeirra er á Egilsstöðum. Annars staðar í frumvarpinu segir að áfram verði veitt fé úr flugþróunarsjóði til að koma á millilandaflugi um Egilsstaða- og Akureyrarflugvelli. Fyrirhugað er að byggja upp minni lendingarstað til að þeir geti sinnt sjúkraflugi.
Ekkert er að finna um fyrirhuguð jarðgöng en endurskoðun á tekjuöflun af ökutækjum, væntanlegt kílómetragjald, er sögð hafa það markmið að fjármagna stærri samgönguverkefni og jarðgangaáætlun. Innviðaráðherra hefur boðað nýja samgönguáætlun í lok október.
Hafrannsóknir efldar og meira streymir í gegnum Fiskeldissjóð
Á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins á að vinna að stækkun fimm framhaldsskóla til að bæta aðstöðu til að fjölga nemendum í starfs- og tækninámi. Verkmenntaskóli Austurlands er ekki þar á meðal þótt árið 2022 hafi verið gerð viljayfirlýsing um stækkun verknámshúss skólans.
Atvinnuvegaráðuneytið ætlar að auka framlög til Hafrannsóknastofnunar um 220 milljónir til að efla hafrannsóknir. Það er viðbót við 410 milljóna hækkun á yfirstandandi ári. Innviðaráðuneytið ætlar að ráðast í rannsóknir á byggðaáhrifum vegna stjórnunar fiskveiða.
Þá hefur Fiskeldissjóður 99 milljónum króna meira til ráðstöfunar vegna aukningar þeirra gjalda sem tekin eru af fiskeldi. Féð fer til uppbyggingar innviða í þeim byggðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Eins er 50 milljónum veitt til Hafrannsóknastofnunar til að sinna burðarþolsmati og meta umhverfisáhrif sjókvíaeldis, meðal annars að rannsaka útbreiðslu laxalúsar.
Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, við kynningu fjárlagafrumvarps 2026 í gær. Mynd: Stjórnarráðið