Heilbrigðisráðherra telur fjármögnun hjúkrunarheimila á landsbyggðinni viðunandi
Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, telur að heilt yfir sé fjármögnun hjúkrunarheimila á landsbyggðinni viðunandi eins og staðan er í dag. Hann geri sér þó fulla grein fyrir að rekstur þeirra margra sé og verði áfram þungur.
Willum fékk fyrirspurn þessa efnis frá Eyjólfi Ármannsyni, Flokki fólksins, á Alþingi fyrir skömmu. Eyjólfur vildi vita hvort Willum teldi tíma til kominn að auka svokallað smæðarálag til minni hjúkrunarheimila og ennfremur hvort breyta ætti fjármögnun slíkra hjúkrunarheimila og auka þannig sveigjanleika í greiðsluþátttöku hins opinbera.
Rekstur slíkra heimila utan stærri þéttbýliskjarna landsins hefur lengi verið þungur. Svo þungur að mörg sveitarfélög sem á sínum tíma sömdu við ríkið um yfirtöku hjúkrunarheimila á sínum svæðum hafa tapað háum fjárhæðum í kjölfarið og mörg þeirra skilað rekstrinum aftur til ríkisins. Nú síðast um áramótin sagði Vopnafjarðarhreppur sig frá rekstri hjúkrunarheimilisins Sundabúðar og 2021 skilaði Fjarðabyggð hjúkrunarheimilum á Fáskrúðs- og Eskifirði til ríkisins svo tvö nýleg dæmi séu tekin.
Við þeim tók, fyrir hönd ríkisins, Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem frá og með sumrinu mun formlega reka öll hjúkrunarheimili á Austurlandi. Þó einhver samlegðaráhrif náist með slíku hefur forstjóri HSA sagt opinberlega að erfiður rekstur breytist ekki þó HSA taki við rekstri þeirra af sveitarfélögunum á svæðinu. Rekstur þeirra verði alltaf þungur á fámennum svæðum með tiltölulega litlum einingum.
Staðan þung víða
Það mun víðar en á Austurlandi sem rekstur slíkra heimila er í járnum eða þaðan af verri sem var ástæða fyrirspurnarinnar til heilbrigðisráðherra á þinginu.
Ráðherra benti meðal annars á í svari sínu að ýmislegt hefði nú þegar verið gert til að bæta stöðuna. Meðal annars hafi svokallað smæðarálag verið tvöfaldað. Slíkt álag er greitt til minnstu hjúkrunarheimilanna sem erfiðast eiga með að ná fram rekstrarhagkvæmni af nokkru tagi. En hann benti einnig á að svo stór og mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustunni væri flókinn í alla staði.
„Háttvirtur þingmaður spurði hvort ég telji að fjármögnun hjúkrunarheimila á landsbyggðinni sé viðunandi. Þetta er auðvitað að mörgu leyti snúin spurning. Ég gæti staðið hér og velt því fyrir mér hvort ég ætti að svara henni játandi eða neitandi, en augljósa svarið er auðvitað já, viðunandi. Það er aldrei svo að við setjum þannig séð fjármagn í jafn stóran og mikilvægan þátt og þjónustu að því sé hægt að svara einhlítt. Það eru svo fjölmörg atriði.“
Tímamótasamningur 2022
Ráðherrann benti á að sérstök úttekt hefði farið fram á rekstri hjúkrunarheimila árið 2021. Afleiðing þeirra vinnu hefði verið nýr samningur milli Sjúkratrygginga annars vegar og þjónustu hjúkrunarheimila á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Tímamótasamningar að mínu viti og hafa fjölmargir undirhópar verið að vinna á samningstímanum að ýmsum umbótaverkefnum sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi heimila til framtíðar og auka gæði þjónustu þeirra, m.a. með því að skoða ólíkan rekstur. Með samningunum var rekstrargrunnur hjúkrunarheimilanna jafnframt styrktur um 1 milljarð kr. á ársgrundvelli. Framlög vegna betri vinnutíma voru aukin um 1,2 milljarða kr. auk rúmlega 570 millj. kr. til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd. Litlar rekstrareiningar voru þá styrktar með svokölluðu viðbótarsmæðarálagi sem bættist við það smæðarálag sem fyrir var.“