Fjarskiptasamband að mestu komið á aftur á Djúpavogi
Ljósleiðaralína Mílu á Suðausturlandi á milli Stafafell og Djúpavogs slitnaði í veðurofsanum sem gekk yfir Austurland fyrir hádegi og þar með datt út síma- og netsamband margra einstaklinga og fyrirtækja á Djúpavogi og í nágrenni. Tekist hefur að koma sambandi á aftur að mestu leyti gegnum aðrar leiðir.
Þetta staðfestir Sigurrós Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Mílu, í samtali við Austurfrétt en hún segir að flestir á svæðinu ættu að vera komnir í samband á ný þegar þetta er skrifað þó viðgerð á umræddri línu sé rétt að hefjast.
„Þetta hefur líklega aðeins haft áhrif á Djúpavog og nágrenni á Austurlandi en okkur tókst að koma á sambandi að mestu leyti fljótlega aftur gegnum aðrar leiðir enda höfum við verið að styrkja kerfið okkar verulega með svona atvik í huga síðustu misserin. Hópur frá okkur er kominn á staðinn til viðgerðar og ég á ekki von á öðru en að viðgerð verði lokið innan nokkurra klukkustunda. Okkur tókst fljótlega að koma sambandi aftur á til flestra heimila en hugsanlega eru einhver fyrirtæki ennþá að verða fyrir áhrifum.“
Aðspurð segir Sigurrós ekki búið að ganga úr skugga um hvers vegna ljósleiðarinn slitnaði en þó búið að útiloka að það hafi gerst af mannavöldum. Líkast til megi rekja bilunina til ofsaveðursins fyrir hádegi en veðrið nú gengið niður á Austurlandi öllu.