Skip to main content

Fjölfosfötin eru ekki tæknileg hjálparefni í saltfiski

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. jan 2011 17:12Uppfært 08. jan 2016 19:22

kalli_sveins.jpgSaltfiskframleiðendur geta ekki falið notkun sína á fjölfosfötum undir því skyni að þau séu tæknileg hjálparefni. Þetta er skýrt í reglum Evrópusambandsins og gildir jafnt fyrir öll aðildarríki segir talsmaður sambandsins.

 

Flestir íslenskir saltfiskútflytjendur hafa notað efnin undanfarinn áratug. Þau hvíta fiskinn, varna þránun og binda vatn í honum. Frá áramótum var endanlega tekið fyrir notkunina sem samkvæmt íslenskum reglum, sem tekin eru upp í ljósi EFTA og EES sáttmálanna, hafa verið bönnuð í átta ár.

Framleiðendurnir hafa reynt að skýla sér á bakvið að efnin séu tæknileg hjálparefni, sem ekki þurfi sérstakt leyfi fyrir. Í frétt í Morgunblaðinu í dag lýsa saltfiskframleiðendur því yfir að þeir hafi áhyggjur af stöðu sinni á mörkuðum þar sem aðrir framleiðendur í norður Evrópu noti efnin enn á undanþágu. Þar er einnig ræddur sá vinkill að þau séu tæknileg hjálparefni.

Fyrir þá skilgreiningu þvertekur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

„Svo virðist sem ákveðnir framleiðendur hafi skilgreint notkun fjölfosföta í fiskafurðum sem „tæknileg hjálparefni“ til að sneiða framhjá þeirri staðreynd að það er bannað að nota fjölfosföt í tilteknum sjávarafurðum. Það er álit Framkvæmdastjórnarinnar að notkun efnanna í þesssum afurðum, þar sem þau eru bönnuð sem aukefni, uppfylli ekki kröfur um tæknileg hjálparefni,“ sagði Aikaterini Apostola, talsmaður heilbrigðis- og neytendamála hjá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í svari við fyrirspurn Agl.is.

Hún ítrekaði að sömu reglur giltu fyrir alla kaupendur og seljendur á öllu evrópska efnahagssvæðinu.

Karl Sveinsson, útgerðarmaður á Borgarfirði, hefur ætíð neitað að nota efnin í sinn fisk og barist fyrir því að íslenskar stofnanir tryggðu að allir framleiðendur færu eftir settum reglum.