Fjögur austfirsk ungmenni fengu styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ
Fjögur ungmenni af Austurlandi eru í hópi alls 34 framúrskarandi námsmanna sem fengu í gær sérstaka styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands.
Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í háskólanum í gær en þeim er ætlað að styðja við nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri til stúdentsprófs en jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum því samhliða. Alls hafa á fimmta hundrað nýnemar fengið styrk úr sjóðnum frá því að hann var settur á laggirnar en upphæðin til hvers og eins að þessu sinni eru 375 þúsund krónur.
Þau austfirsku ungmenni sem þóttu vel að heiðrinum komin eru Ragnar Þórólfur Ómarsson úr Verkmenntaskóla Austurlands og þau Noor Muayad Khalid Al Zamil, Patryk Lukasz Edel og Jóhanna Hlynsdóttir sem öll luku námi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum.
Ragnar Þórólfur Ómarsson lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskóla Austurlands í vor. Öll þrjú árin í skólanum var hann liðsmaður í Gettu betur liði skólans en það komst í undanúrslit keppninnar í vor. Þá æfir Ragnar Þórólfur knattspyrnu með meistaraflokki Knattspyrnufélags Austurlands. Sumar- og vetrarstörf hjá Lyfju kveiktu áhuga hans á lyfjafræði og hefur hann nú innritast í þá grein.
Noor Muayad Khalid Al Zamil brautskráðist frá Menntaskólanum á Egilsstöðum í vor en hún flutti hingað til lands frá Írak fyrir fimm árum eftir að hafa dvalið í flóttamannabúðum í Jórdaníu í tvö og hálft ár. Noor hefur áhuga á að starfa innan heilbrigðisgeirans hér á landi og hefur innritast í hjúkrunarfræði.
Patryk Lukasz Edel brautskráðist frá Menntaskólanum á Egilsstöðum í vor en samhliða síðustu önn sinni í skólanum vann hann sem stuðningsfulltrúi í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Hann hefur æft kraftlyftingar að undanförnu og þá hefur hann samið eigin tónlist í fjölmörg ár og hefur þegar gefið út sína fyrstu plötu á streymisveitum. Patryk hefur hafið nám í viðskiptafræði.
Jóhanna Hlynsdóttir útskrifaðist frá Menntaskólanum á Egilsstöðum vorið 2022. Hún á að baki nám í einsöng og á ásláttarhljóðfæri og lét m.a. að sér kveða í söngkeppni ME og í Morfís fyrir hönd skólans. Jóhanna lék einnig knattspyrnu á yngri árum með Hetti á Egilsstöðum og státar af bæði þjálfara- og dómararéttindum í greininni. Jóhanna dvaldi síðasta vetur í lýðháskóla í Danmörku en hefur nú hafið nám í lyfjafræði.
Allir styrkþegarnir við athöfnina í gær ásamt rektor HÍ og stjórnar Afreks- og hvatningarsjóðsins. Mynd Gunnar Sverrisson.