Fjölbreytnin hefur bjargað Djúpavogi

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps frá 2002-2018, segir stefnu sveitarfélagsins um fjölbreytt atvinnulíf, hafa bjargað byggðalaginu úr áföllum sem það lenti í á þessum tíma. Tvisvar á þessum tíma var stórum atvinnustöðum í byggðarlaginu lokað.

„Árið 2004 fór bræðslan. Þegar við komum inn í sveitarstjórnina var verið að klára nýju bryggjuna í Gleðivík fyrir fyrirtækið sem stóð að bræðslunni. Þar var undir 600 milljóna fjárfesting fyrirtækisins og á annað hundrað milljónir úr sveitarsjóði í hafnarmannvirkin.

Síðan kemur nýr meirihluti í fyrirtækið og það er bútað niður á milli tengdra aðila innan stórútgerðarinnar. Sveitarfélagið yfirtók þá bræðsluhúsnæðið, vélbúnað og vinnslu. Við reyndum að koma af stað vinnslu og náðum tímabundnum viðskiptum við færeyskar uppsjávarútgerðir. Það stóð ekki lengi því aðrar bræðslur í kringum okkur yfirbuðu okkur. Það var allt gert til að kollkeyra þetta og stórútgerðin lét ekki sitt eftir liggja í því,“ rifjar Andrés upp.

Varð að standa í lappirnar þegar Vísir lokaði


Tíu árum síðar kom annað áfall þegar Vísir lokaði fiskvinnslu sinni. „Þegar Vísir hætti héldu sumir íbúar að við hefðum vitað að þetta væri yfirvofandi en svo var alls ekki. Ég var í vinnunni þegar sveitarstjórinn hringir og segir ég verði að koma niður á skrifstofu. Þar voru fulltrúar Vísis með tilbúna fréttatilkynningu og báðu okkur að bíða í klukkutíma þannig þeir væru búnir að tilkynna starfsfólkinu þetta sjálfir. Þeir voru þarna að loka á þremur stöðum í einu og síðan voru áætlunarferðir í boði til Grindavíkur.

Ég tel líkur á að viðskiptabanki fyrirtækisins hafi beitt þrýstingi á þessum tímapunkti. Auðvitað reiddumst við. Ég held ég hafi ekki sofið í viku, allt snérist um að bregðast við stöðunni. Á svona stundum verður að standa í lappirnar og maður finnur til ábyrgðar. Við ákváðum strax að halda íbúum mjög reglulega upplýstum um stöðuna. Við funduðum með þingmönnum, fengum þáverandi ráðherra og Byggðastofnun austur á íbúafund og tókst að seinka lokuninni aðeins.“

Hættulegt að horfa á eitthvað eitt til bjargar


Strax í tilkynningu Vísis var talað um að uppgangur fiskeldis myndi milda höggið að lokunni. Það hefur byggst upp en það tók tíma, loks árið 2020 var íbúafjöldinn á Djúpavogi orðinn jafn og í byrjun árs 2014.

„Fiskeldið þvældist frekar fyrir á þessum tíma með gaspri og óvönduðum vinnubrögðum sem trufluðu samræður okkar við stjórnvöld um aflaheimildir sem við kröfðumst í stað þeirra sem teknar voru af okkur. Ég ætla ekki að gera lítið úr fiskeldinu en það er hættulegt að horfa á eitt fyrirtæki eða atvinnugrein til að að bjarga öllu. Það hefur reynst samfélögum dýrkeypt og verið endurtekin sorgarsaga allt í kring um landið.

Ég held að stefna sveitarfélagsins um fjölbreytt atvinnulíf með Cittaslow, stuðningi við ferðaþjónustu, náttúru og umhverfi hafi skipt mestu máli í þessum áföllum Viðnámsþróttur var til staðar og íbúarnir samtaka.

Sveitarstjórn tók á sínum tíma meðvitaða ákvörðun um að leggja metnað í aðalskipulagið. Oftar en ekki vinna sveitarfélög skipulag meira af skyldurækni og átta sig ekki á að skipulagið er raunverulegt stjórntæki, eina alvöru stjórntækið sem íbúar hafa aðkomu að á öllum stigum. Okkur var hrósað fyrir skipulagið af viðkomandi ráðuneyti og það nýttist okkur mjög vel á mörgum sviðum,“ segir Andrés.

Gat ekki látið kjósa D


Andrés fór fyrst í framboð í Djúpavogshreppi árið 2002 með Nýlistanum. Listinn fékk þrjá menn kjörna en hitt framboðið, Framtíðarlistinn tvo. Nýlistinn hélt meirihlutanum fjórum árum síðar og var síðan einn 2010. Árið 2014 kom fram nýr listi, Óskalistinn. Andrés leiddi þá hitt framboðið, Framfaralistann.

„Það trúir því enginn en 2014 ætlaði ég ekki fram. Ég hafði verið syðra fyrir sveitarfélagið og flaug austur á sunnudegi. Síðasti séns að skila inn framboðum var á hádegi daginn eftir. Klukkan átta um morguninn er bankað á dyrnar hjá mér og sagt að það verði að koma fram annar listi og ég verði að taka slaginn. Þarna vorum við nýbúin að missa 90% kvótans og staðan ekki einföld.

Ég var áður búinn að segja nei en þarna fannst mér skyldan kalla. Mér fannst vænt um að þau höfðu bankað upp á hjá mér. Á endanum sagði ég að ef þau hringdu út, og söfnuðu fólki á lista og undirskriftum þá skyldi ég halda áfram.

Fimm mínútur í tólf mættum við svo til kjörstjórnar með fullskipaðan lista og undirskriftir. Við hétum þá Djúpavogslistinn. Ég áttaði mig á því þarna fyrst að þá hefðum við staðið uppi með X-D. Ég sagði að það gengi ekki. Við fundum því annað nafn. Á síðustu sekúndunum segir einhver „Framfaralistinn.“ Það var engin hugsun á bakvið það, nema X-D gat það ekki orðið,“ segir Andrés en Framfaralistinn vann á sjö atkvæðum.

Nýjar skoðanir þykja öfgakenndar


Andrés lét staðar numið 2018 og flutti síðar til Reykjavíkur. Þar hefur hann hann meðal annars starfað sem verkefnastjóri hjá Landvernd. „Fólki finnst oft skoðanir sem eru nýjar og öðruvísi um leið öfgakenndar. Skoðanir í umhverfismálum sem fyrir 20 árum þóttu sterkar og öfgakenndar þykja jafnvel afturhaldsamar í dag. Náttúruverndararmurinn, sem ég tilheyri, hefur almenna og góða þekkingu á málaflokknum og er á undan samtíðinni, hið sama á við um loftslagsmálin. Umhverfisverndarsamtök og sérfræðingar hafa í áratugi varað við þeim hamförum sem við stöndum frammi fyrir af mannavöldum.

Djúpivogur var fyrsta sveitarfélagið hér eystra til að flokka úrgang frá heimilum og fyrirtækjum. Það þótti nú sumum reyndar til vitnis um umhverfisöfga af minni hálfu. En hverjum skyldi detta til hugar að snúa til baka með það í dag?

Stundum er reynt að stilla loftslagsmálum upp gegn náttúruverndinni. En hvar var niðurstaða COP15 ráðstefnunnar? Manneskjan verður að hætta að brjóta land. Við björgum ekki loftslaginu með að eyðileggja heiðarnar okkar eða önnur önnur mikilvæg vistkerfi sem eru öndunarfæri jarðarinnar.“

Landssvæði frátekin í gullgrafaraæði


Undanfarin misseri hefur Andrés verið áberandi í umræðunni á landsvísu um uppbyggingu vindorku. Hann segir stöðuskýrslu um orkumál, sem starfshópur umhverfis-, loftlags- og orkumálaráðherra skilaði af sér vorið 2022, hafa verið „óskalista orkufyrirtækja“ sem orsakað hafi „áhlaup erlendra orkufyrirtækja með íslenska milliliði, rétt eins og í fiskeldinu. Eins og þar þá eru tekin frá landssvæði í einskonar gullgrafaraæði. Það eru gríðarleg umhverfisspjöll sem fylgja uppbyggingu vindorkuvera, þau eru mjög landfrek og ógna meðal annars votlendum heiðarlendum.

Það er auðvitað ekkert grænt að baki þessari græðgi. Almenningur verður að spyrja sig núna hvort gefa eigi helstu auðlindir þjóðarinnar frá sér fyrir fáa útvalda á sama tíma og samþjöppun auðs og valds og orðin að sjálfstæðri ógn á heimsvísu. Við lifum því miður í gjörspilltum heimi!“

Andrés varar við áhrifum vindorkunnar á almennan raforkumarkað. „Er fólki sama þótt raforkureikningurinn tvöfaldist eða þrefaldist hér út um landið? Vindorkan verður ekki reist nema með mikilli niðurgreiðslu á kostnað almennings, þannig hefur sagan þróast hjá nágrannaþjóðum okkar og við erum ekkert öðruvísi.“

Hann segist ekki slá á vindmyllur fyrir ríki sem eigi ekki aðra kosti en Íslendingar hafi bæði jarðvarmann og vatnsaflið. Hann bendir á að hægt sé að bæta tækjabúnað til að ná meira afli úr þeim virkjunum sem fyrir eru. Andrés ítrekar að vindmyllur séu ögrun við íslenska náttúru og í besta falli geti 1-2 vindmyllur staðið á stóriðjusvæðum.

Smávirkjanir engar heimarafstöðvar í bæjarlæknum


Andrés hefur einnig gagnrýnt áform um nýjar vatnsaflsvirkjanir, svo sem á Hraunasvæðinu hér eystra. „Það var talað um smávirkjanirnar eins og einhverjar heimarafstöðvar í bæjarlæknum en virkjunin upp af Geitdal er til dæmis ekkert smá inngrip. Þar yrði 15 metra há og 100 metra löng steypt stífla sem veldur óafturkræfum náttúruspjöllum. Einstæðar fossaraðir hverfa. Hið sama á við glórulaus áform um Hamarsvirkjun. Raunverulega er verið að spilla því síðasta sem er ósnortið af Hraunasvæðinu.

Þegar ég var formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands spurði ég aðliggjandi sveitarstjórnir í hreinskilni hvort til of mikils væri mælst að vernda 20-30% af því sem eftir er af Hraununum eða í raun megin hluta af austurhálendi Íslands var engin viðbrögð að hafa.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.