Skip to main content

Fjölbreytt menningarverkefni styrkt af Múlaþingi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. feb 2024 11:04Uppfært 05. feb 2024 14:30

Djamm á Djúpavogi, tölvuleikur um vættir Íslands, menningartengdir minjagripir og ljósmyndasýning í minningu Skarphéðins Þórissonar. Aðeins brot af þeim verkefnum sem fengu styrk úr menningarsjóði Múlaþings í síðustu viku.

Gnótt fjölbreyttra menningarverkefna fengu styrkveitingu að þessu sinni en um er að ræða fyrri úthlutun af tveimur alls úr sjóðnum þetta árið. Alls 35 umsóknir bárust frá 32 aðilum en til úthlutunar nú voru rétt tæpar átta milljónir króna. Alls fengu 30 verkefni náð fyrir augum menningarnefndarinnar og þau vægast sagt fjölbreytt mjög.

Minjasafn Austurlands, Skaftfell og Sláturhúsið fengu fjármagn til að setja upp þrjár mismunandi sýningar tileinkaðar listamanninum Kjarval en hugmyndin að draga fram tengsl hans við Austurland. Sýning á munum hans mun fara fram í Minjasafninu sjálfu, Skaftfell setur upp sýningu af verkum hans gegnum tíðina en rúsínan í pylsuendanum hugsanlega sérstök leiksýning um þennan merka mann sem Sláturhúsið setur upp í samvinnu við Borgarleikhúsið.

Sigríður Matthíasdóttir hlaut styrk til gerðar stuttmyndar um mæðgurnar og kvenréttindafrömuðina Sigríði Þorsteinsdóttur og Ingibjörgu Skaptadóttur sem báðar voru frá Seyðisfirði. Myndin verður í kjölfarið nýtt af hálfu Tækniminjasafnsins í sýningum þar innandyra.

Björg Sigfinnsdótir naut einnig góðs úr sjóðnum en hún vill þróa lista- og menningartengda minjagripi um Austurland og Seyðisfjörð sérstaklega. Vinnustofa verður sett upp þar sem þróun og hugsanlega framleiðslan sjálf fari fram í kjölfarið.

Af ýmsu öðru forvitnilegu er að taka og má þar nefna styrki til framleiðslu á tölvuleik um vætti Íslands og þar með talinn hinn austfirski dreki, uppsetningar á ljósmyndasýningu í minningu Skarphéðins Þórissonar líffræðings, sérstakar hljómsveitarbúðir fyrir ungmenni í Djúpavogsskóla í maímánuði og verkefni sem miðar að því að leiða fólk saman gegnum mat og matargerð. Styrkina alla í heild sinni má sjá hér.

Tónelsk ungmenni á Djúpavogi eiga gott í vændum síðla í maímánuði þegar þar fara fram sérstakar hljómsveitarbúðir.