Skip to main content

Fjölbreyttari forritarar skila fjölbreyttari kerfum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. ágú 2025 15:33Uppfært 05. ágú 2025 15:34

Anna Sigríður Islind – eða bara einfaldlega Anna Sigga eins og Eskfirðingar þekkja hana, varð nýverið fjórða konan á Íslandi til að hljóta framgang sem prófessor í tölvunarfræði. Hún segir röð tilviljana hafa leitt hana í fagið á sínum tíma. Hún hefur einkum helgað sig stafrænum tæknilausnum og gervigreindarlausnum í heilbrigðisgeiranum og leiðir meistaranám í stafrænni heilbrigðistækni.


Anna Sigga ólst upp á Stöðvarfirði fyrstu fimm árin. Hún flutti þá til Eskifjarðar og var þar í grunnskóla en hélt síðan suður til Reykjavíkur í Fjölbrautaskólann við Ármúla. Eftir menntaskólaárin segir hún: „Að ég hafi farið í tölvunarfræðina er eins og margt annað í lífinu, röð tilviljana.

Ég tók þátt í keppni Ungra Vísindamanna með vinkonu minni, Bryndísi Guðmundsdóttur, sem nú er hjúkrunarfræðingur á Reyðarfirði. Við hönnuðum vetnishús. Við vorum þarna, tvær stelpur með sellurnar okkar sem splittuðu vatni í súrefni og vetni og hönnuðum heildstætt hús sem var alfarið sjálfbært og drifið af vetni. Þetta gerðum við árið 2003.“

Þær unnu keppnina, tóku síðan þátt í Evrópukeppni í Ungverjalandi og komust þaðan áfram í heimskeppni í Kína, þar sem þær hlutu fyrstu verðlaun. „Þegar við stóðum á sviðinu í Kína fattaði ég að við værum þarna, tvær stelpur frá Íslandi á meðal strákanna.“

Hún fór í viðtöl um árangurinn sem varð til þess að Háskólinn í Reykjavík bauð henni skólastyrk. Anna Sigga hafði verið að hugsa um félagsfræðigreinar en komst að því að raungreinar hentuðu henni vel. „Ég á ekkert eitt gott svar við því af hverju ég valdi tölvunarfræðina. Ég vissi ég ætti auðvelt með að læra þannig að ég vissi að ég gæti líklegast lært hvað sem er.

Það var talað um að maður fengi góð laun ef maður menntaði sig í tölvunarfræði. Það hljómaði vel því ég vildi geta verið sjálfstæð og geta staðið á eigin fótum. Um leið og ég byrjaði í náminu fann ég að tölvunarfræðin lá vel við mér. Fagið er fjölbreytt og engir tveir dagar eru eins, sem mér finnst gaman.“

Lengi slítandi að vera eina konan


Tölvufög hafa löngum verið karllægar greinar en Anna Sigga segist sjá talsverða breytingu frá því hún byrjaði og þar til nú. „Við vorum fáar stelpurnar þegar ég var í náminu. Ég var stundum við það að hætta í huganum. Það var þreytandi barátta að vera eina konan á vinnustaðnum en þetta hefur breyst mikið.

Það er orðið miklu viðurkenndara en fyrir 20 árum að vera stelpa sem er tölvunarfræðingur. Fjölbreytileikinn eykst sífellt og kynjamunurinn hefur jafnast. Núna eru rúmlega 25% nemenda okkar konur og kvár.“

Hún leggur áherslu að það sé mikilvægt fyrir þróun í faginu að nemendahópurinn sé ekki einsleitur. „Ef mörg koma að hönnun og þróun tölvukerfa verða kerfin fjölbreyttari.“

Tæknin jafnar aðgengi í heilbrigðisþjónustu


Anna Sigga fór síðan út til Svíþjóðar í frekara nám, kláraði grunnnám, meistaranám og doktorsnám í tölvunarfræði áður en hún kom aftur heim til Íslands til starfa hjá HR. Hún hefur mikið unnið að stafrænni heilbrigðistækni og leiðir sérstakt nám í stafrænni heilbrigðistækni á meistarastigi.

„Ég hef unnið með hagnýtingu tæknilausna til að efla gagnadrifna ákvarðanatöku og unnið mikið með gervigreindarlausnir í heilbrigðisgeiranum. Það er margt að gerast í þessum efnum og ég tel að við þurfum breytingar ef við viljum jafna þjónustuna fyrir öll, þar með talið íbúa landsbyggðarinnar. Við þurfum að beita okkur fyrir notkun stafrænnar tækni til að allir Íslendingar hafi jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Ég gleymi aldrei að ég er utan af landi og beiti mér fyrir jöfnu aðgengi að tækni og menntun í hvívetna.

Við erum núna að vinna að stóru verkefni í samstarfi við Háskólann í Oxford og erum með styrk frá heilbrigðisráðuneytinu sem einblínir á kvíðameðferð fyrir börn í gegnum stafræna tækni. Stafræna tæknilausnin er bæði fyrir sálfræðinga og foreldra og byggir á hugrænni atferlismeðferð. Hugsunin er að tryggja aðgengi að þessari frábæru gagnreyndu meðferð, bæði þannig að börn um allt land geti komist í hana en líka til að sérfræðingarnir geti veitt meðferðina óháð því hvar þeir búa.“

Þurfum að læra á gervigreindina en ekki hafna henni


Eins og aðrir í tölvugeiranum í dag gengur starf Önnu Siggu mikið út á gervigreind, möguleika hennar og áskoranir. „Hvað sem okkur finnst um hana þá er hún jafn mikið komin til að vera og Internetið á sínum tíma. Það er að verða bylting sem við erum í miðjunni á.

Aðspurð hvað það sé í hennar fagi sem Austfirðingar geti nýtt sér til að þróa áfram samfélagið, segir hún að jákvæðnin sé mikilvæg. „Það skiptir máli að taka tæknilausnunum fagnandi og fyrir svæði eins og Austurland hefur tæknin stytt boðleiðirnar. Síðan þarf að mennta gott fólk sem er tilbúið til að koma til baka.“

Dr. Anna Sigríður Islind, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.