Skip to main content

Fjöldi gesta fagnaði opnun nýs húsnæðis Landsnets á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. mar 2025 10:20Uppfært 21. mar 2025 10:22

Tveimur og hálfu ári eftir að húsnæði Vasks að Miðási á Egilsstöðum brann að stærstum hluta í miklum eldsvoða var endurbyggt húsið opnað gestum í gær sem ný og glæsileg miðstöð Landsnets á Austurlandi.

Landsnet hefur undanfarin ár verið með starfsemi sína í nokkuð þröngu bili við hlið þess hluta hússins sem varð eldi að bráð að mestu þann 28. september 2022 en snarræði slökkviliðs á þeim tíma kom að langmestu í veg fyrir að eldurinn næði að breiðast inn í þeirra hluta hússins.

Úr varð, þar sem starfsemi Landsnets austanlands hefur farið stigvaxandi ár frá ári, að Landsnet keypti húsið allt og hefur síðustu misserin verið unnið að endurbyggingu þess undir starfsemina.

Því verki lauk fyrir skömmu og í gær bauð fyrirtækið áhugasömum að koma og njóta formlegrar opnunar nýju miðstöðvarinnar.

Um 50 manns fögnuðu þar með starfsfólki og yfirmönnum fyrirtækisins og hélt forstjórinn, Guðmundur Ingi Ásmundsson, tölu af því tilefni. Í máli hans kom meðal annars fram að þörfin fyrir stærra húsnæði hafi lengi verið til staðar og nú sé vel rúmt um starfsfólkið og pláss sé nú til að geyma töluvert af bílum og tækjum fyrirtækisins innandyra sem ekki var kostur áður.

Undir það tóku allir þeir starfsmenn sem rætt var við en fyrir utan rúmgóða skrifstofuaðstöðu mun stóraukið gólfrými auðvelda starfsfólkinu alla vinnu.

Forstjóri Landsnets þakkaði öllum mikla og góða vinnu við að endurbyggja húsið í ræðu sinni en gestum var boðið upp á veitingar meðan þeir kynntu sér nýju miðstöðina. Myndir AE