Fjölga veiðidögum rjúpu á Austurlandi
Þrátt fyrir að vortalningar hafi sýnt að Austurland var eini landshlutinn þar sem rjúpum fækkaði frá árinu áður leggur Náttúruverndarstofnun til að veiðidagar austanlands verði fleiri en fyrir ári og mun fleiri en annars staðar í landinu.
Stofnunin kynnti fyrir viku tillögur sínar að rjúpnaveiði þessa árs fyrir hvern landshluta en veiðitímabilið verður það sama og fyrir ári eða frá 24. október fram til 22. desember. Á Austurlandi verða veiðar heimilar í alls 45 daga og 30 daga á Norðausturlandi en annars staðar eru veiðidagarnir færri.
Þetta er annað árið þar sem Náttúruverndarstofnun gefur út tillögur sínar með gjörbreyttri aðferðarfræði en áður var raunin. Þau fræði byggja nú á uppfærðum stofnlíkönum og veiðistjórnun tekur sérstakt mið af hverju svæði fyrir sig í samræmi við markmið stjórnunar- og verndaráætlunar stjórnvalda.
Stofnunin birti í júní talningatölfræði sína frá vorinu sem sýndi tölverðar breytingar á fjölda rjúpna samanborið við niðurstöðurnar 2024. Í heild sáust 28% fleiri rjúpur nú en fyrir ári fjöldanum misskipt. Á Vestfjörðum og Norðvesturlandi taldist fjöldinn svipaður milli ára, aukning mældist á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðausturlandi en aðeins á Austurlandi fækkaði fuglum.
Aðeins er um tillögur að ræða sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þarf að staðfesta áður en þær taka gildi. Athugasemdum er hægt að koma á framfæri við stofnunina fram á fimmtudaginn kemur.
Margt þykir benda til þess að fjölgun rjúpu á ýmsum stöðum á landinu megi beint rekja til enn frekari fækkunar íslenska fálkans. Mynd Náttúruverndarstofnun