Fjölgar hlutfallslega mest í Fljótsdal
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. jan 2024 10:48 • Uppfært 04. jan 2024 10:48
Íbúum á Austurlandi fjölgaði um 277 á árinu 2024, miðað við tölur Þjóðskrár. Íbúum fjölgaði í öllum sveitarfélögunum fjórum á Austurlandi, hlutfallslega mest í Fljótsdalshrepp þar sem þeim fjölgaði um 7,7 prósent. Þess ber þó að geta að það þýðir að íbúum í Fljótsdal hafi fjölgað um átta.
Tölur Þjóðskrár miðast við 1.desember ár hvert en hafa verið uppfærðar miðað við 1. janúar síðastliðinn, svo í raun eru þrettán mánuðir undir í samanburðinum. Frá 1. desember síðastliðnum og til ársbyrjunar nú fjölgaði íbúum á Austurlandi um sjö og eru þeir nú 11.509 talsins.
Einnig sést að frá 1. desember síðastliðnum og fram til 1. janúar fjölgaði íbúum Fjarðabyggðar um fjórtán talsins en fækkaði um átta í Múlaþingi. Engu að síður fjölgaði íbúum sem fyrr segir í báðum sveitarfélögunum á þrettán mánaða tímabili, um 129 í Fjarðabyggð og um 133 í Múlaþingi. Íbúum í Vopnafjarðarhreppi fjölgaði um sjö á tímabilinu.
Á fimm ára tímabili hefur íbúum Austurlands fjölgað um rétt um 770 manns, og hefur fjölgunin átt sér stað í öllum sveitarfélögum.