Fjölmennur fundur um framtíð austfirsku skíðasvæðana

Hvernig sjá menn fyrir sér framtíð austfirsku skíðasvæðanna og hvernig er vænlegast að gera veg þeirra meiri og mikilvægari en nú er? Þetta var gróflega þema fjölsótts fundar sem fram fór á Egilsstöðum í gær undir heitinu Hoppsa Bomm.

Um 50 manns sóttu fundinn sem haldinn var að frumkvæði Austurbrúar.

Köll hafa verið eftir því um hríð að stofnunin skipulegði umræðuvettvang um gildi skíðasvæðanna í Oddsskarði og Stafdal bæði fyrir heimamenn en ekki síður sem hugsanlegan segul á fleiri ferðamenn austur en raunin hefur verið.

Skíðasvæðin geta leikið stórt hlutverk, hugsanlega aðalhlutverk, í þeirri stefnu sem unnið er að austanlands að auka vetrarferðamennsku í fjórðungnum að margra mati. Til þess þarf töluverðar fjárfestingar umfram það sem þegar hefur verið. Kostnaðurinn yrði töluverður enda hvorki húsakostur né þjónustustig á skíðasvæðunum hér á pari við það sem margir gera kröfur um í dag þó flestir séu sammála um að skíðabrekkurnar standist allan samanburð. Um fjármögnun slíks spunnust nokkrar umræður á fundinum.

Meðal fyrirlesara voru embættismenn frá Múlaþingi og Fjarðabyggð, skíðaáhugafólk, ferðaþjónustuaðilar austanlands auk þess sem Ingimar Elí Hlynsson, sölustjóri Icelandair, steig í pontu auk Guðmundar Karls Jónssonar skíðarekstrarfræðings og fyrrum forstöðumanns í Hlíðarfjalli .

Gnótt tækifæra

Fram kom í máli allra aðila að sannarlega væru fólgin mikil tækifæri í að efla skíðasvæðin og þar með skíðaferðamennsku. Ýmis tækifæri fælust í að eiga tvö góð skíðasvæði og sameiginlegir skíðapassar eða skíðapakkar á bæði svæðin væru góð byrjun.

Sölustjóri Icelandair taldi ljóst að mikil tækifæri væru falin í vetrarferðamennsku og hann beinlínis hvatti Austfirðinga til að útbúa spennandi pakka fyrir þann stóra hóp útivistarfólks sem ferðast að vetrarlagi. Undir það tóku ferðaþjónustuaðilar en þó nokkrir bentu einnig á að skíðasvæðin væru sönn lífsgæði fyrir íbúana hér líka. Einn þeirra gekk svo langt að segja að ef ekki væri fyrir Oddsskarð væri hann líkast til ekki búsettur í fjórðungnum.

Ýmsir höfðu á orði að sveitarfélögin ættu að sameinast um að halda stóra skíðahátíð saman hvern vetur og þannig hugsanlega trekkja fleira ferðafólk. Í Oddsskarði hefur, sem dæmi, undanfarið tekist dável að halda stærri viðburði á borð við Austurland Freeride Festival og Big Air - Fjarðabyggð sem hafa verið sóttir af fólki annars staðar frá.

Fjöldi áskorana

Áskoranir komu þó einnig til tals á fundinum. Þar bar hæst að kostnaður við að reka skíðasvæðin væri drjúgur eins og er fyrir fámenn sveitarfélög. Kostnaður Múlaþings vegna yfirtöku á skíðasvæðinu í Stafdal fyrir tæpum tveimur árum hefur verið töluvert hærri en ráð var fyrir gert.

Allnokkrir nefndu að hugsanlega mætti sækja fjármagn til einkaaðila auk þess að fá styrki til verksins. Nokkrir aðilar töldu vænlegast að loka öðru hvoru skíðasvæðinu og þannig beina þeim fjármunum sem til væru á einn stað.

Einnig kom fram sá punktur að oftar en ekki lokast bæði skíðasvæðin og vegir að þeim þegar veður eru válynd. Við þær kringumstæður þyrfti að finna ferðafólki sem hingað væri komið til skíðaiðkunar aðra afþreyingu í staðinn. Ein hugmyndin sem fram kom snérist um að koma upp láglendisskíðasvæði, hugsanlega í Selskógi á Egilsstöðum, þar sem óhætt yrði að senda börn og unglinga ef blési duglega á fjöllum. Slíkt svæði myndi einnig nýtast ferðafólki ef svo bæri undir.

Tillögurnar áfram til sveitarstjórna

Í lok fundarins var gestum skipt niður í hópa þar sem fjöldi hugmynda var ræddur og allar þær hugmyndir og uppástungur lagðar í púkk í lokin. Starfsfólk Austurbrúar mun vinna úr þeim niðurstöðum og senda á sveitarstjórnir á Austurlandi þar sem öll ákvörðunartaka fer fram.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.