Fjölskylduráð Vopnafjarðar þrýstir á um nýja skólalóð
Fjölskylduráð Vopnafjarðarhrepps hefur farið þess á leit við sveitarstjórn að einar níu hugmyndir að betri þjónustu og bættum bæjarbrag verði felldar inn í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár.
Það enginn skortur á hugmyndum frá ráðinu sem samþykkti samhljóða fyrir skömmu að mælast til þess að níu hugmyndir þeirra fengju brautargengi í fjárhagsáætlun næsta árs. Þar stendur einna hæst að betrumbæta skólalóðina en leitað var fyrir nokkru til skólakrakkanna sjálfra um hvað bæta mætti þar að sögn Berglindar Steindórsdóttur, formanns fjölskylduráðsins.
„Þetta eru allt tillögur sem okkur í ráðinu finnst mikilvægar. Það hafa verið tafir á að hefja endurbætur á skólalóðinni og ekki búið að ljúka hönnun lóðarinnar lóðina eins og hún á að vera í framtíðinni. Það verkefni er reyndar í vinnslu nú þegar en við viljum gjarnan fara að sjá endalok á því og að hafist verið handa við verkið. Þörfin er orðin töluverð. Þarna vantar ný leiktæki og krakkarnir sjálfir eru spenntir fyrir að fá hjólabraut við skólann svo dæmi sé tekið. Margar fleiri hugmyndir komu frá þeim um hvað mætti gera betur og vænlegt að reyna að fara að óskum þeirra eins og hægt er.“
Þá leggur ráðið til að komið verði upp myndavélum við skóla bæjarins auk þess sem hækka þurfi frístundastyrk þar sem æfingagjöld hafa almennt hækkað í verði. Einnig verði skoðað hvort hægt sé að lengja opnunartíma sundlaugarinnar í september og maí.
Þá mælir ráðið með því að sveitarstjórn festi kaup á sérstökum hjólastólabíl sem Berglind segir komin tíma á. „Það er mikilvæg þjónusta að okkar mati og slíkur bíll myndi nýtast vel næstu árin.“
Krakkarnir í Vopnafjarðarskóla hafa sjálf komið fram með ýmsar hugmyndir um hvernig betrumbæta má skólalóðina til framtíðar. Mynd Vopnafjarðarhreppur