Fjölþættar lausnir þarf til að höggva á húsnæðishnútinn

Framboðin til sveitarstjórnar Múlaþings eru með mismunandi áherslur á hvaða leiðir skulu farnar til að leysa úr skorti á íbúðahúsnæði í öllum kjörnum sveitarfélagsins. Eldri borgarar hafa óskað eftir svæði undir hús á svipuðum slóðum og íþróttafélagið Höttur vill byggja upp nýtt íþróttasvæði.

Þetta er meðal þess sem rætt var á framboðsfundi sem Austurfrétt og Múlaþing stóðu fyrir með fulltrúum allra framboða síðasta laugardagskvöld. Augljóst hefur verið á kosningabaráttunni hvar sem er á Austurlandi að húsnæðismál eru frambjóðendum og kjósendum ofarlega í huga.

„Þetta er forgangsverkefni sveitarstjórnar,“ sagði Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans. „Þetta vandamál veðrur ekki leyst með einu höggi. Við þurfum fjölþættar lausnir,“ sagði Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks.

Lóðir, byggingakostnaður og fleira

Flestir frambjóðendur töluðu um að auka þyrfti framboð skipulagðra lóða og þær yrðu að vera fjölbreyttar. Jónína sagði margar lóðir lausar eftir átak síðustu mánaða. „Þetta voru bara einbýlishúsalóðir áður og verktakar þurftu að eyða tíma í að breyta lóðum,“ sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks. Jónína sagði að ræða þyrfti við verktaka af svæðinu um hvernig væri að leysa ákveðin mál.

Frambjóðendur töluðu fyrir því að afgreiðsla á skipulagssviði sveitarfélagsins, en fólki hefur verið fjölgað verulega á því sviði eftir tilurð Múlaþings. Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, nefndi hugmynd frá nýlegum fundi um húsnæðismál á Austurlandi um að komið yrði á laggirnar umboðsmanni húsbyggjenda hjá sveitarfélögum sem hjálpaði byggjendum að feta rétta slóð í reglugerðum og kröfum. „Ég held það geti sparað öllum peninga, líka sveitarfélaginu.“

Rætt var um aflsætti á gatnagerðargjöldum. „Við gerðum að bjóða enn meiri afslátt ef byggingaaðilar taka ekki við sér,“ sagði Berglind Harpa. Hún nefndi að hækkandi fasteignaverð væri til góða því það hvetti verktaka áfram, en kostnaður hefur verið hærri en söluandvirði.

Örn Bergmann Jónsson frá Miðflokkinum sagði framboðið vilja bregðast við þeim mismuni þannig að sveitarfélagið ábyrgðist byggingakostnaðinn og mismun milli hans og fasteignaverð til baka eftir ákveðið mörg ár. Það yrði vonandi til þess að örva framkvæmdir og hækka verðið þannig kostnaður sveitarfélagsins yrði á endanum óverulegur.

Komið var inn á samstarf Múlaþings við opinberu félögin Bríeti og Brák, sem komið hafa að byggingu íbúðarhúsnæðis víða um land auk fundar með Bjargi sem er í eigu ASÍ og BSBR. Öll félögin eru rekin án hagnaðarsjónarmiða.

Í síðustu viku var lagður hornsteinn að nýrri götu, Selbrún, í Fellabæ. Hrafnshóll áformar að byggja þar 40 íbúðir auk þess sem það er með raðhús í byggingu á Djúpavogi og áformar íbúðakjarna með þjónustu á Seyðisfirði. Fyrirtækið hefur hins vegar verið gagnrýnt, einkum á Seyðisfirði, fyrir seinagang. „Það er líka kominn tími á að ýta á eftir að ákveðið fyrirtæki standi við loforðin,“ sagði Helgi Hlynur.

Íbúðir fyrir eldra fólk og íþróttasvæði

Eldri borgarar á Egilsstöðum hafa einnig hug á að byggja upp húsnæði og hafa augastað svæði nærri hjúkrunarheimilinu Dyngju. Þeir eru ekki einir um það. Huga þarf að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu til framtíðar auk þess sem íþróttafélagið Höttur vill gera sitt framtíðarsvæði ekki langt frá, neðan Menntaskólans á Egilsstöðum.

Í kjölfar fundar í lok apríl var samþykkt að gera vinnslutillögu að skipulagi fyrir svæðið þar sem bæði íþróttirnar og eldri borgararnir eiga að rúmast. Hún verður auglýst. Aðspurðir lýstu frambjóðendur stuðningi við þessa framtíðarsýn. Þeir bentu þó á að hún tæki tíma og áframhaldandi samtal væri gagnlegt. „Það á eftir að kostnaðargreina þetta stóra verkefni. Það mun kosta að minnsta kosti milljarð og taka einhver ár,“ benti Hildur á.

Heyra má nákvæmari svör framboðanna, sem og svör þeirra við öðrum spurningum, í spilaranum hér að neðan.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.