Skip to main content

Fjórir Austfirðingar aðstoða ráðherra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. nóv 2023 10:33Uppfært 27. nóv 2023 10:34

Fjórir Austfirðingar starfa nú sem aðstoðarmenn ráðherra. Fimmti aðstoðarmaðurinn bætist í hópinn úr hópi aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar. Vopnfirðingar standa best að vígi með tvo fulltrúa í hópnum.


Á föstudag var tilkynnt að Konráð S. Guðjónsson hefði verið ráðinn aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra. Konráð er fæddur árið 1988 og alinn upp á Vopnafirði en hann hefur undanfarna mánuði verið aðalhagfræðingur Arion banka.

Hinn aðstoðarmaður Þórdísar er einnig Austfirðingur, Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir frá Seyðisfirði. Hún fylgir Þórdísi úr utanríkisráðuneytinu. Inga Hrefna er reynd í faginu því hún var aðstoðarmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar alla hans ráðherratíð frá 2013-2021.

Kári Gautason er aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra. Kári er uppalinn Vopnfirðingur, nánar til tekið á Grænalæk. Hann var lærði búvísindi hérlendis og í Danmörku áður en hann gerðist bóndi á heimaslóðum á árunum 2013-15. Hann snéri sér í kjölfarið að störfum fyrir bændur og svo pólitíkina.

Fáskrúðsfirðingurinn Hafþór Eide Hafþórsson aðstoðar Lilju Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra. Hann aðstoðaði hana einnig í upphafi ráðherratíðar hennar sem mennta- og menningarmálaráðherra frá 2017. Hafþór starfaði lengri eystra, meðal annars á bæjarskrifstofum Fjarðabyggðar, hjá Alcoa Fjarðaáli auk þess að stýra safninu Fransmenn á Íslandi í tvö ár.

Dagný Jónsdóttir er aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar í samhæfingarmálum, staðsett innan forsætisráðuneytisins. Hún ólst að hluta til upp á Eskifirði og varð síðan þingmaður Norðausturkjördæmis árin 2003-7.

Hægt er að halda áfram upptalningu Austfirðinga í lykilstörfum innan stjórnmálaflokkanna. Tómas Guðjónsson er framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar. Hann er uppalinn Vopnfirðingur, nánar til tekið bróðir Konráðs. Hann hefur starfað fyrir flokkinn í töluverðan tíma og var meðal annars kosningastjóri í Norðausturkjördæmi árið 2017.

Konráð S. Guðjónsson á fundi á Egilsstöðum fyrr í þessum mánuði. Hann er nýjasti austfirski aðstoðarmaðurinn.