Skip to main content

Fjórir sektaðir á árinu vegna utanvegaaksturs á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. sep 2023 11:51Uppfært 05. sep 2023 11:59

Fjórir ökumenn hafa fengið sektir á Austurlandi þetta sumarið fyrir utanvegaakstur samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Lögreglan á Austurlandi setur sér í byrjun hvers árs sérstakar áætlanir um helstu áherslumál og þetta sumarið var sérstök áhersla á hert eftirlit með utanvegaakstri sem seint og illa gengur að koma í veg fyrir.

Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns, hefur lögregla náð í skottið á fjórum aðilum í sumar vegna utanvegaaksturs og þeir fengið sektir fyrir. Þá hefur lögregla haft viðveru við skipakomur Norrænu í allt sumar og reynt að ná til þeirra sem koma á stærri bílum eða tækjum og líklegt þykir að hyggi á hálendisferðir og farið munnlega yfir þær reglur sem gilda um akstur utan vega.

Fjöldi einstaklinga bregðast gjarnan við þegar upp kemst um utanvegaakstur á viðkvæmum svæðum eins og á þessari mynd frá Kverkfjallaleið síðasta sumar. Þá héldu félagar úr Austurlandsdeild 4x4 á staðinn til að lagfæra miklar skemmdir eins og hægt var. Mynd Jón Garðar Helgason