Fjórtán milljóna króna styrkur til opnunar samvinnuhúss á Vopnafirði
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, úthlutaði í vikunni styrkjum fyrir 140 milljónir króna til verkefna sem efla eiga byggðir landsins. Einn styrkurinn, upp á rúmar 14 milljónir, fór til Vopnafjarðar til að koma þar á fót samvinnuhúsi.
Alls bárust 19 umsóknir um styrki að þessu sinni en framlag ríkisins kemur af byggðaáætlun um sérstæk verkefni sóknaráætlunarsvæða. Sótt var um styrki fyrir 437 milljónir alls sem var töluvert hærri upphæð en var til skiptanna.
14,1 milljón króna var veitt austur á land, nánar tiltekið til Vopnafjarðar, en umsókn um styrkinn kom upphaflega frá Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi.
Fjármagnið skal nýtt til að setja upp gott samvinnurými á Vopnafirði en með slíkum rýmum í öllum byggðakjörnum fjórðungsins skapast góð aðstaða til ýmis konar atvinnusköpunar hvort sem það eru óstaðbundin störf eða einfaldlega betra rými fyrir störf í ófullnægjandi aðstöðu í dag.