Skip to main content

Fleiri arfgerðir finnast sem vernda íslensku sauðkindina gegn riðu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. nóv 2023 16:19Uppfært 07. nóv 2023 14:41

Nýjar rannsóknir hafa sýnt að fleiri arfgerðir vernda íslensku sauðkindina gegn riðu en áður var talið. Niðurstöðurnar verða kynntar á opnum fundi á Egilsstöðum annað kvöld.


Þekking á riðu hefur tekið stakkaskiptum hérlendis síðustu tveimur árum. Karólína Elísabetardóttur, bóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð, hefur drifið þær áfram. „Það er munur milli landa og sauðfjártegunda hvaða arfgerðir eru verndandi,“ útskýrir hún.

Á heimsvísu er arfgerðin ARR viðurkennd sem verndandi. Talið var að hún fyndist ekki á Íslandi en eftir athuganir að frumkvæði Karólínu og samverkafólks fannst hún á kindum á Þernunesi í Reyðarfirði í byrjun árs 2022.

En Karólína hélt einnig áfram með ítalskar rannsóknir að vopni sem sýndu breytileika í erfðaefni, T137, sem verndaði gegn riðu. Sú arfgerð er til í íslenska sauðfénu.

Nýjar arfgerðir með vernd


Síðustu mánuði hefur rannsóknunum verið haldið áfram og í þeim náðist samband við franskan vísindamann, dr. Vincent Béringue, sem þróað hefur aðferð til að kanna útbreiðslu smitefnis riðu á tilraunastofu. Ferlið hjá honum tekur minna en tvo sólarhring meðan það tekur 2-3 ár í náttúrunni.

Með henni hafa verið prófaðar 17 mismunandi arfgerðir með smitefni úr 13 sauðfjárhjörðum á Íslandi þar sem riða hefur komið upp. Auk þess eru til gögn til samanburðar úr 14 íslenskum riðuhjörðum sem sýna arfgerðir bæði smitaðra og ósmitaðra kinda úr þeim hjörðum. Um er að ræða sýni úr alls um 4.000 kindum, þar af tæplega 330 smituðum, víða af landinu.

Niðurstöðurnar eru hinar sömu. ARR er verndandi og T137 líka en þessu til viðbótar hafa fundist tvær aðrar arfgerðir, C151 og AHQ sem vernda gegn riðusmiti. Þá eru kindur með arfgerðina N138 fjórum sinnum ólíklegri til að smitast af riðu en þær sem enga arfgerðanna hafa.

Söguleg stund að dregið sé úr niðurskurði


Karólína og Vincent hafa í vikunni verið á ferð um landið til að kynna þessar niðurstöður. Með þeim á Egilsstöðum verða einnig Eyþór Einarsson, sauðfjárráðunautur og Þórdís Þórarinsdóttir, bóndi á Bustarfellli í Vopnafirði og starfsmaður Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. Hún kynnir áhrif innleiðingar kinda með verndandi arfgerðir í íslenska stofninn á aðra eiginleika hans.

Þá er með þeim Sigurbjörg Bergsdóttir, sérgreinalæknir sauðfjár hjá Matvælastofnun. Sigurbjörg fer yfir fyrri viðbrögð við riðu, sem til þessa hefur nánast algjör niðurskurður hjarðar og hvaða áhrif ný þekking hefur. Karólína segir að á fundunum til þessa hafi dýralæknar MAST kynnt áform um að skera ekki niður kindur með þær arfgerðir sem nú hafa komið fram sem verndandi á bænum Stórhóli á Húnaþingi vestra en riða greindist þar í vikunni.

„Það er söguleg stund en líka gleðilegt fyrir okkur sem síðastliðin tvö ár höfum barist fyrir að mark sé tekið á þessum rannsóknum og málin skoðuð á grundvelli nýrrar þekkingar,“ segir Karólína.

Fundurinn er haldinn á Hótel Héraði og hefst klukkan 20:00 á morgun, fimmtudaginn 2. nóvember.