Skip to main content

Fleiri Austfirðingar með en á móti veiðigjöldum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. júl 2025 11:36Uppfært 09. júl 2025 11:36

Íbúar landsbyggðarinnar eru almennt meira efins um hækkun veiðigjalda en íbúar höfuðborgarsvæðisins þótt á flestum landssvæðum séu fleiri með hækkun en á móti.


Þetta má lesa út úr könnun sem Maskína gerði í lok júní. Samkvæmt henni styðja 48% Austfirðinga breytingar á veiðigjöldunum en 31% segist á móti þeim. Þá eru eftir 21% sem lýsa hlutleysi.

Meðaltal á kvarðanum 1-5, þar sem 5 þýðir að vera mjög hlynntur frumvarpinu, var 3,21 fyrir Austurland. Á bakvið Austurland eru 40 svör.

Heilt yfir eru íbúar landsbyggðarinnar með meiri efasemdir um hækkun gjaldanna en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Tölurnar fyrir Austurland og Vesturland/Vestfirði, sem eru flokkuð saman, eru svipaðar.

Á landsvísu er stuðningurinn 62%, þar af 73% í Reykjavík. Aðeins á Norðurlandi reynist stuðningur við veiðigjöldin takmarkaður, þar eru 31% með breytingunni en 46% á móti henni. Meðalstuðningur er 3,64, lægstur á Norðurlandi 2,72.

Maskína spurði einnig hversu vel fólk teldi sig þekkja frumvarpið. Þær tölur eru nokkuð jafnar yfir landið. Austfirðingar virðast þó telja sig vera best inni í því miðað við meðaltalstöluna 3,32, sem er sú hæsta. Meðaltalstalan er hærri á landsbyggðinni en lægri á höfuðborgarsvæðinu. Á landsvísu er talan 3,17.

Það á þó ekki við þegar horft er á hlutfallstölurnar. Á Austurlandi segjast 37% þekkja frumvarpið mjög vel, 21% illa en 42% segja þekkingu sína í meðallagi. Á landsvísu telja 38% þekkja frumvarpið vel en 24% illa.